Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Þurfi að ræða fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga

Mynd: RÚV / RÚV
„Er það þess virði að standa fjárhagslega svona sjálfstæð, með sjálfstæða tekjustofna, þegar betur er skoðað?,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um sveitarfélögin í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.

Hann sagði að þröng staða sveitarfélaganna kallaði fram mun dýpri spurningar heldur en hvort ríkið ætti að greiða tugi milljarða til að leysa vanda þeirra til skamms tíma. Sú áhersla sem hefði verði lögð á sjálfstæði sveitarfélaga og sjálfstæða tekjustofna þeirra hér á landi hefði í för með sér að þegar vel gengi fengju sveitarfélögin að njóta góðs af því: „Þau fá mikla aukningu og fara tiltölu létt í gegnum slíkt skeið.“ Þegar verr áraði réðu þau hins vegar varla við fjárhaginn. 

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að hlaupa ekki undir bagga með sveitarfélögunum. Hann sagði hættu á að sveitarfélögin drægju úr fjárfestingu vegna þess hversu þröngt þeim væri sniðinn stakkur af hálfu ríkisins. „Nú er hægt að spyrja hvort þau geti skuldsett sig meira? En þau hafa mun lakari lánakjör en stendur ríkissjóði til boða,“ sagði hann og benti á að nettó skuldauppsöfnun hins opinbera yrði sú sama hvort sem lán væru tekin af ríkinu eða sveitarfélögum. Hann spurði hvort til stæði að koma betur til móts við sveitarfélögin með beinum stuðningi, sambærilegum þeim sem fyrirtæki fengu, eða með hagstæðum lánalínum. 

Bjarni sagði að hér á landi væri lögð ríkari áherslu á fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaganna en á hinum Norðurlöndunum. Umfang sveitarstjórnarstigsins í heildarútgjöldum hins opinbera væri mun lægra en þar og tilfærslur og beinn stuðningur til sveitarfélaga, t.d. í gegnum jöfnunarsjóð, mun lægra hlutfall af heildartekjum sveitarfélaganna en á Norðurlöndunum.

Hann sagði að sú stefna sem hér væri rekin hefði afdrifaríkar afleiðingar fyrir sveitarfélögin, þau nytu góðs af góðæri en ættu í vök að verjast á krepputímum. Því þyrfti að athuga hvort það væri þess virði að fyrir sveitarfélögin að standa fjárhagslega sjálfstæð.