Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Taldi höfundarrétt að engu hafðan með stækkun bílskúra

22.10.2020 - 16:14
Útilistaverk við bæjarmörk Garðabæjar.
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur vísað frá kæru Albínu Thordarson, arkitekts, varðandi ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar um nýtt deiliskipulag fyrir Lundahverfi. Breytingin felst meðal annars í því að leyfilegt verður að stækka bílskúra raðhúsalengju sem Albína teiknaði um 10 fermetra. Hún taldi að með þessari breytingu væri höfundar- og sæmdarréttur hennar sem arkitekts raðhúsanna að engu hafður.

Málið má rekja til þess að knattspyrnumaðurinn Garðar Jóhannesson og eiginkona hans sóttu um leyfi til að gera nokkrar breytingar á raðhúsi sínu í september fyrir þremur árum. Fréttablaðið greindi frá málinu á sínum tíma. Þar kom fram að bæjaryfirvöld hefðu ekki fallist á beiðni þeirra og þau kært málið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. 

Ekkert varð þó af því að niðurstaða kæmist í málið því bæjaryfirvöld óskuðu eftir fresti og fengu. Deiliskipulagi Lundahverfis var síðan breytt þannig að íbúum við raðhúsalengjuna var nú heimilt að stækka bílskúra sína um 10 fermetra. Allir íbúar lengjunnar voru fylgjandi þessari breytingu nema einn; Albína Thordarson sem jafnframt teiknaði húsin á sínum tíma.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar bendir hún á að bæjaryfirvöld hafi látið gera húsakönnun í tengslum við fyrirhugaða deiliskipulagsbreytingu.  Raðhúslengjan hafi verið valin sem dæmi um það sem merkast hafi gerst í íbúðarhúsahönnun á árunum 1967 til 1987.  Listrænt gildi húsanna, menningarsögulegt gildi, umhverfisgildi og varðveislugildi þeirra hafi skorað hátt í öllum þessum flokkum.

Þá bendir Albína á að Minjastofnun hafi í október á síðasta ári lagt til að þau yrðu friðuð og að þau nytu hverfisverndar í deiliskipulagi. Með stækkun bílskúranna væri niðurstaða húsakönnunar og Minjastofnunar hunsuð. Framkvæmdirnar myndu hafa í för með sér verulegar breytingar á útliti raðhúsalengjunnar, rýra þannig verndargildi þeirra og gera friðun marklausa. Auk þess væri höfundar- og sæmdarréttur hennar sem arkitekts húsanna að engu hafður.

Þá sagði hún að svo virtist sem bæjarfélagið hefði látið undan þrýstingi og hótunum um skaðabótakröfur sem hefðu komið fram í fjölmiðlum. Er Albína þar væntanlega að vísa til fréttar Fréttablaðsins af málinu.

Úrskurðarnefndin hafnaði þessum kröfum og segir meðal annars í úrskurði sínum að lög kveði ekki á um að samþykki arkitekta húsa þurfi þegar deiliskipulagi sé breytt eða samþykkt.  Aftur á móti telur nefndin sig ekki geta úrskurðað um hvort breytingin feli í sér brot á höfundar- eða sæmdarrétti, það væri verkefni dómstóla að skera úr um það. Var kæru Albínu því vísað frá.

Albína segir í samtali við fréttastofu að hún sé ekki búin að gefast upp og hafi nú sent inn aðra kæru til úrskurðarnefndarinnar vegna málsins. Ekki er komin niðurstaða vegna þeirrar kæru. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV