Stuð á Íslendingunum í Þýskalandi

epa08125528 Iceland's Bjarki Mar Elisson reacts during the Men's EHF EURO 2020 Handball preliminary round match between Iceland and Russia in Malmo, Sweden, 13 January 2020.  EPA-EFE/ANDREAS HILLERGREN  SWEDEN OUT
 Mynd: EPA

Stuð á Íslendingunum í Þýskalandi

22.10.2020 - 19:27
Fjórir leikir fóru fram í þýsku Bundesligunni í handbolta í kvöld. Íslenskir leikmenn voru áberandi í markaskorun.

Bjarki Már Elísson var iðnastur við kolann en hann skoraði sjö mörk fyrir Lemgo sem vann Essen með 31 marki gegn 23. Bjarki Már var markahæstur í liði Lemgo og er markahæstur í deildinni. Hann hefur nú skorað 35 mörk í 5 leikjum eða sjö mörk að meðaltali í leik.

Oddur Grétarsson, sem nýlega var valinn á ný í landsliðið eftir 8 ára fjarveru, skoraði 6 mörk fyrir Balingen sem tapaði með eins marks mun á heimavelli gegn Ludwigshafen, 27-26.

Janus Daði Smárason skoraði 5 mörk og gaf 3 stoðsendingar fyrir Göppingen sem vann Leipzig á útivelli með 25 mörkum gegn 22. Leipzig sat eitt á toppi deildarinnar fyrir leikinn.

Þá skoraði Arnór Þór Gunnarsson 5 mörk fyrir Bergischer sem gerði jafntefli við Hannover-Burgdorf á útivelli, 30-30. Arnór Þór skoraði jöfnunarmark Bergischer þegar leiktíminn var úti. Ragnar Jóhannsson komst ekki á blað hjá Bergischer.

Leipzig, Bergischer og Lemgo raða sér í efstu sæti deildarinnar öll með 7 stig eftir 5 leiki. Göppingen lyfti sér í 9. sæti með sigrinum í kvöld en Balingen situr á botninum án stiga.

Bjarki Már, Oddur, Janus Daði og Arnór Þór verða allir í eldlínunni með íslenska landsliðinu þegar það mætir Litáen og Ísrael í undankeppni EM 2022 hér á landi í byrjun nóvember. Það virðist sem þeir séu allir í góðu standi, sem veit á gott fyrir íslenska liðið.