Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Smitum fjölgar enn við Eyjafjörð – SAk í viðbragðsstöðu

22.10.2020 - 15:46
Mynd með færslu
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso
Fjölgað hefur um tvo í einangrun á Norðurlandi eystra frá því í gær. Fólki í sóttkví hefur fækkað talsvert. Sérstök aðstaða hefur verið útbúin á Sjúkarhúsinu á Akureyri til að takast á við COVID-19.

38 eru í nú einangrun á Norðurlandi eystra, tveimur fleiri en í gær. 99 eru í sóttkví og hefur fækkað um 78 frá því í gær. Sem fyrr eru smit á Akureyri, í Eyjafjarðarsveit og Hörgársveit, en nú hefur eitt smit greinst í póstnúmeri 607 sem er Fnjóskadalur.

Covid-aðstaða tilbúin á SAk

Ekki hefur verið opnuð aftur sérstök Covid-deild á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þar eru tilbúin tvö einangrunarherbergi og mönnun fyrir þau, ef þörf krefur. Þá hefur verið útbúin Covid-göngudeild í hluta bráðadeildar ef fólk þarf nánari skoðun án þess að leggjast inn. Sigurður Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga, segir að enn hafi enginn þurft á þessari þjónustu að halda. Nokkrir hafi leitað til bráðamóttöku með grun um COVID-19, en ekki reynst smitaðir.

Leikskólinn Árholt á Akureyri var opnaður á ný í gær. Niðurstaða skimunar sýndi að enginn í hópi nemenda og starfsfólks reyndist með COVID-19. Í dag eiga að liggja fyrir niðurstöður úr sýnatökum í Oddeyrarskóla, en í bréfi til foreldra kemur fram að það velti á þeim niðurstöðum hvert framhaldið verður. Skólinn hefur nú verið lokaður í viku.