Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir of seint að sameiginlegur skilningur náðist í dag

22.10.2020 - 20:15
Mynd: Samsett mynd / RÚV
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG, ræddu það misræmi sem kom upp eftir að ný reglugerð um sóttvarnir tók gildi á þriðjudag á grunni nýjasta minnisblaðs sóttvarnalæknis í Speglinum í dag.

„Þetta minnisblað sem þarna er, er í sirka tólf liðum sem er skipt í þrjá liði hver og mörg atriði sem þarf að fara yfir. Það verður þarna misræmi í einu atriði sem er bagalegt,“ sagði Ólafur Þór. „Það hefur komið fram hjá sóttvarnalækni, þríeykinu og Svandísi núna áðan að þarna hafi farið af stað misskilningur sem er mjög mikilvægt að leiðrétta. Þetta er hættan þegar ákvarðanir eru teknar hratt, og það er í rauninni eitthvað til að læra af.“

Segir samstöðu hafa minnkað í kjölfar myndatöku ráðherra

„Þegar svona misræmi kemur upp þá eykst pirringur,“ sagði Helga Vala sem sagðist finna fyrir farsóttarþreytu í samfélaginu.

„Það gerðist í sumar að það varð misræmi milli leiðbeininga sóttvarnalæknis og þess sem kom frá ráðuneytinu og svo var það auðvitað þessi myndtaka þarna í sumar sem leiddi til þess að sóttvarnalæknir fór að bakka með tveggja metra reglu, og sagði að þetta væri nú bara tilmæli.

Það er þarna sem þetta fer að skolast til og þá minnkar samstaðan, ég get ekki kennt einhverju einu um það en maður fann að það varð breyting þarna síðsumars,“ sagði Helga Vala. 

Ólafur Þór tók það fram og sagði mikilvægt að kæmi fram að í öllum meginatriðum hafi heilbrigðisráðherra farið eftir því sem hafi komið fram í minnisblöðum sóttvarnalæknis.

„Það hefur í nokkrum tilfellum þurft að skýra hluti og eins og gerist núna í dag þá ræða heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknir þessa hluti saman og komast að sameiginlegri niðurstöðu og skilningi,“ sagði hann.

Stjórnvöld hafi ekki birt reglur með sómasamlegum hætti

Helga Vala sagði þessa sameiginlega niðurstöðu koma of seint miðað við að reglugerðin hafi þegar tekið gildi. Þá lýsti hún yfir áhyggjum af birtingu reglna sem vísað er til í sóttvarnarlögum. „Það eru gamlar reglur sem við erum að vísa til, alþjóðaheilbrigðisreglugerðar og þess háttar, sem stjórnvöld hafa heykst á að birta með sómasamlegum hætti þannig að ekki er hægt að vísa í þær reglur þegar um er að ræða almenning. Það eru bara stjórnvöld sem þurfa að fara eftir þeim regum en almenningur í rauninni ekki, þegar kemur að þessu.“