Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir mikilvægt að dæma ekki heila stétt

Dómsmálaráðherra segir mikilvægt að dæma ekki heila stétt vegna máls lögregluþjóns sem bar merki sem tengd hafa verið við hatursorðræðu á búningi sínum. Hún segir að kynþáttafordómar verði ekki liðnir innan lögreglunnar og vill að lærdómur verði dreginn af málinu.  

Ljósmynd af lögregluþjóni með fána á búningi sínum sem tengdir hafa verið við hatursorðræðu hefur hefur farið víða á samfélagsmiðlum síðasta sólarhringinn, og vakið upp hörð viðbrögð. Málið var tilkynnt sérstaklega til eftirlitsnefndar um störf lögreglu og verður tekið fyrir á fundi lögregluráðs í byrjun nóvember. 

„Síðan er það auðvitað bara mjög skýrt og ég hef ítrekað að kynþáttafordómar í lögreglunni eru ekki liðnir, hvorki nú eða hér eftir. Síðan er verið að skoða endurmenntun lögreglunnar og hvernig við getum gert betur í þeim efnum. Og þá er verið að taka inn kennslu sem varðar hatursorðræðu, siðferði og annað,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. 

Trúir því að fólk hafi ekki áttað sig á merkingunni

Lögreglukonan á myndinni sagði í samtali við fréttastofu í gær að hún hefði ekki gert sér grein fyrir að merkingarnar væru tengdar við rasisma og Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn sagðist í gær sjálfur hafa þurft að fletta merkingunni upp. 

„Ég trúi því að fólk hafi kannski ekki áttað sig á merkingu merkjanna. Það er auðvitað mikilvægt að kynna sér það og það er auðvitað á ábyrgð lögreglumanna. En fyrst og fremst eiga auðvitað ekki að vera nein merki á lögreglubúningum. Vissirðu sjálf hvað þessir fánar merktu? Nei ég þekkti ekki græna fánann í fljótu bragði og þurfti að afla mér upplýsinga um það. “

Draga þurfi lærdóm af málinu

Áslaug Arna telur ekki að kynþáttafordómar séu grasserandi innan lögreglunnar. Hún vill að dreginn verði lærdómur af málinu. 

„En það er auðvitað líka mikilvægt að dæma ekki heila stétt. Lögreglan nýtur mikils trausts hér á landi og er að sinna sínu starfi afar vel. En við getum auðvitað alltaf gert betur. “