Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Riðan í Skagafirði hefur áhrif á búskap í Eyjafirði

22.10.2020 - 12:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Riðan á Stóru Ökrum 1 í Skagafirði hefur mikil áhrif á búskap sauðfjárbænda í Eyjafirði, sem tilheyra sama varnarhólfi. Haustið er helsti tími viðskipta með líflömb en slíkir flutningar milli bæja eru nú bannaðir.

Tröllaskagahólf, þar sem riðan kom upp, nær frá Héraðsvötnum í austanverðum Skagafirði að Eyjafjarðará auk fremri hluta Eyjafjarðarsveitar að austanverðu. Allur flutningur geita og sauðfjár innan hólfsins er nú bannaður.

Mikið áfall að ekki megi lengur flytja gripi milli bæja

Stór hluti sauðfjárræktar snýst um kynbætur og viðskipti með líflömb. Því er jafnan mikill samgangur milli bæja og algengt að bændur kaupi gripi af sveitungum sínum og úr næstu sveitum innan hvers varnarhólfs. „Fyrir utan félagslega þáttinn sem fylgir þessu. Þetta hefur alltaf verið mikill hluti af sauðfjárræktinni og það er mikið áfall að þetta stoppist,“ segir Sigurgeir Hreinsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar.

Verslun með kynbótalömb mest á haustin

Verslun með lömb milli bæja er mest á þessum tíma árs þegar líflömbin eru valin. Sigurgeir segir að þetta komi því á afar slæmum tíma. „Það má segja að það hafi verið búið að ganga frá ýmsum viðskiptum með lömb. Og það átti kannski ekkert eftir að gera nema flytja skepnuna á milli. En það hefur stoppast.“

Bændur fengið kynbótagripi frá Stóru Ökrum

Stóru Akrar 1 er mikið ræktunarbú og hafa bændur bæði í Skagafirði og Eyjafirði fengið hrúta og lömb sem eru upprunnin þaðan. Því bíða allmargir bændur í Tröllaskagahólfi nú niðurstöðu úr rannsóknum á sýnum sem tekin verða úr sláturfé á þessu svæði.

Dæmi um takmarkanir í 20 ár eftir að riða kemur upp

Sigurgeir segir að þróunin næstu daga verði að leiða í ljós hve lengi bann við fjárflutningum innan hólfsins varir. „Það hafa verið ýmsar takmarkanir í allt að tuttug ár eftir að riða kemur upp. En ég held bara að við bíðum og sjáum til hvað Matvælastofnun og dýralæknar segja til um hvað það kemur til með að standa lengi, eftir því hvort þetta kemur eitthvað víðar eða ekki.“