Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Obama blandar sér í slaginn

Mynd: EPA-EFE / BIDEN HARRIS CAMPAIGN
Barack Obama, fyrrverandi forseti, tók í gærkvöld í fyrsta sinn beinan þátt í kosningabaráttunni fyrir kosningarnar í Bandaríkjunum 3. nóvember er hann ávarpaði kjósendur í Fíladelfíu, stærstu borg Pennsylvaníuríkis. Þar hvatti hann almenning til að nýta atkvæðisréttinn og sagði að Joe Biden og Kamala Harris, frambjóðendur Demókrata í forsetaskosningunum, gætu leitt þjóðina úr þessum myrku tímum. 

Biden enn með forskot

Tólf dagar eru til kosninga í Bandaríkjunum og hefur Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata, enn talsverða forystu á Donald Trump, forseta, þó að munurinn hafi minnkað lítillega. Hann er nú tæplega tíu prósentustig á landsvísu.

Kosningabaráttan nálgast hámark

Kosningabaráttan nálgast nú hámark, í kvöld verða seinni kappræður forsetaefnanna. Þær fara fram í Nashville í Tennessee, ríki þar sem lítill eða enginn vafi leikur á úrslitunum því forsetinn nýtur miklu meira fylgis í ríkinu en Biden.

Trump fór mikinn

Athyglin beinist þó miklu fremur að ríkjum þar sem minni munur er á milli frambjóðendanna. Það eru ríki eins og Pennsylvanía, Flórída, Ohio og Norður-Karólína, þar sem forsetinn hélt útifund í gærkvöld. Þar fór hann mikinn, vandaði andstæðingum sínum ekki kveðjurnar og hélt á lofti samsæriskenningum um svokallað djúpríki, óskilgreindan hóp sem réði á bak við tjöldin.

Biden undirbýr sig fyrir kappræður

Joe Biden hefur ekki haldið fundi síðastliðna þrjá daga heldur undirbúið sig fyrir kappræðurnar í kvöld. Andstæðingar Bidens hafa látið að því liggja að raunveruleg ástæða þess að hann hefur ekki haldið fundi sé hnignandi heilsa. 

Kappræður og kosningavaka á RÚV

Kappræður Bidens og Trumps verða sýndar á RÚV í nótt og hefst útsendingin klukkan eitt. Þá er rétt að minna á að kosningavaka vegna kosninganna í Bandaríkjunum verður eftir kosningarnar 3. nóvember. Þar verður fylgst með talningu og úrslitum úr kosningunum.