Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Minni skjálftavirkni - óvíst hvað það merkir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Talsvert hefur dregið úr skjálftavirkni á Reykjanesskaga undanfarinn sólarhring, en þar varð jarðskjálfti 5,6 að stærð í fyrradag.  Um 100 skjálftar hafa mælst á svæðinu frá miðnætti, þar af sjö skjálftar af stærðinni 2 og stærri. Sigríður Magnea Óskarsdóttir jarðvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir ekki hægt að segja til um hvort þetta merki að skjálftahrinunni sé að linna, eða hvort þetta sé fyrirboði annars stórs skjálfta. 

„Það hefur nokkuð dregið úr hrinunni frá því í gær, svona hægt og bítandi. Um 100 skjálftar hafa mælst á svæðinu frá miðnætti, þeir eru allir á bilinu 0,5 til um 2 að stærð og við höfum ekki fengið neinar tilkynningar um að neinn þeirra hafi fundist,“ segir Sigríður Magnea. 

Er þetta það sem mátti búast við í kjölfar stóra skjálftans í fyrradag? „Það er svosem enginn fastur tími á því hvað það tekur svona hrinur langan tíma að jafna sig. En við gætum allt eins búist við svo sem að það myndi taka sig upp aftur. Það er ekkert hægt að útiloka það enn sem komið er.“

Bendir eitthvað til þess að annar stór jarðskjálfti sé í vændum? „Það er erfitt að segja til um það.  Það er ekki hægt að útiloka það. Virknin gæti færst austar, en hún hefur ekki gert það ennþá. Hún er ennþá bundin við Fagradalsfjall, Krýsuvík og þetta svæði.“