Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Læknar eru bara fólk eins og annað fólk“

Mynd: RÚV / RÚV
Formaður Læknafélags Reykjavíkur segir þjónustu sérgreinalækna á landsbyggðinni á ábyrgð stjórnvalda, ekki læknanna sjálfra. Læknar séu eins og annað fólk og í misgóðri aðstöðu til þess að vera lengi að heiman.

Ekkert í samningum við sérgreinalækna skyldar þá eða hvetur til þess að veita þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins þar sem meginþorri þeirra starfar. Þjónusta þeirra á landsbyggðinni er því tilviljanakennd og oftar en ekki byggð á tengslum við heimamenn. Fólk þarf því oft að bíða lengi eftir að fá tíma eða ferðast langt til að sækja sér þjónustuna.

Þórarinn Guðnason, formaður Læknafélags Reykjavíkur, segir sérgreinalækna meðvitaða um vandann og tilbúna til þess að vera hluti af lausninni. Þeir séu hins vegar ekki hluti af vandamálinu og það sé alveg ljóst að ábyrgðin liggi hjá stjórnvöldum. Þá megi ekki vanmeta það sem sé vel gert nú þegar og margir læknar leggi mikið á sig til að sinna heimabyggð og átthögum vel. Það sé mikill vilji hjá læknum en lausnin sé ekki einföld, til dæmis sé heilsugæslan rekin miðlægt af ríkinu og það sé erfitt að manna stöður þar. Það verði ekkert auðveldara með sérgreinalækna.

Þarf að gera vinnuna eftirsóknarverða

Lausnin felist ekki í því að skikka lækna út á land gegn vilja sínum, líklegra til árangurs sé að gera það eftirsóknarvert, og viðbótarkostnaður af slíkri starfsemi þurfi að fást greiddur. Þjónustan kosti og það þurfi að greiða fyrir húsnæði, tækjabúnað og brottfall úr vinnu í Reykjavík þar sem einhverjir þurfi að loka stofu sinni þar á meðan. Hluti af lausninni sé líka að passa upp á nýliðun hjá sérgreinalæknum, það gefi til dæmis auga leið að tveir taugalæknar í Reykjavík séu ekki líka að fara að sinna sex heilbrigðisumdæmum. 

Þá þurfi líka að passa upp á gæði þjónustunnar. Lækni geti reynst erfitt að veita fullkomna þjónustu án nauðsynlegs tækjabúnaðar og þess teymis sem hann vinnur venjulega með. Tilteknar myndatökur og rannsóknir sé til dæmis aðeins hægt að gera í Reykjavík. 

Ein lausn að greiða fólki raunverulegan kostnað og uppihald

Þórarinn segir um 8% íbúa landsins búa í meira en tveggja tíma akstursfjarlægð frá sérfræðingum á Akureyri og í Reykjavík, fyrir þann hóp sé kannski mest gagn af því að fá raunverulegan ferðakostnað og uppihald greitt. „Læknar eru bara fólk eins og annað fólk og þurfa að sækja í leikskóla og komast kannski ekkert í vikulanga vinnu úti á landi. En lausnin er fjölþætt og það þarf að ræða málin og við erum tilbúin í það samtal,“ segir hann. 

Sjúkratryggingar Íslands hafa auglýst eftir viðræðum um þjónustu sérgreinalækna utan sjúkrahúsa. Í nýjum samningum er gerð krafa um að ákveðin þjónusta sérgreinalækna sé veitt í heilbrigðisumdæmunum.