Kristín Sesselja, Sniglabandið og Babies með nýtt

Mynd: Sniglabandið / 35 ára

Kristín Sesselja, Sniglabandið og Babies með nýtt

22.10.2020 - 14:35

Höfundar

Það er Kristín Sesselja sem ríður á vaðið í Undiröldunni að þessu sinni með lag af væntanlegri plötu. Við kynnumst einnig nýju samstarf Babies og Unu Stef, heyrum hvernig Sniglabandið fagnaði 35 ára afmæli sínu og heyrum ný lög frá Thin Jim and The Castaways og fleirum.

Kristín Sesselja - Earthquake

Á morgun gefur Kristín Sesselja út plötu sem heitir Breakup Blues, þar sem hún semur lög og texta en Baldvin Hlynsson útsetur. Þau hafa unnið saman í rúmt ár að þessu verkefni á milli þriggja landa, Noregs, Svíþjóðar og Íslands og segja lagið Earthquake vera undir áhrifum frá Taylor Swift og Bítlunum.


Thin Jim and The Castaways - Leaves Still Green

Hljómsveitin Thin Jim and The Castaways hefur sent frá sér lagið Leaves Still Green og saknar þess að spila eins og margt tónlistarfólk þessa dagana. Sveitin sem hefur starfað í nokkur ár er skipuð þeim Margréti Eiri, Jökli Jörgensen, Vigni Snæ og Gísla Magna.


Gillon - Lukkuklukkur

Gísli Þór Ólafsson ljóðskáld er maðurinn á bak við lagið Lukkuklukkur sem hann gefur út undir nafninu Gillon. Lagið var tekið upp í Benmen-hljóðverinu og upptökustjórn var í höndum Sigfúsar Arnars Benediktssonar.


Sniglabandið - Haltu kjafti

Þann 17. október átti Sniglabandið 35 ára afmæli og ætlar að fagna því með stanslausum hátíðahöldum í heilt ár og útgáfu lagsins Haltu kjafti og það er ekki hægt að segja annað en að það sé í karakter.


Babies Flokkurinn og Una Stef - Með þér

Með þér er samstarfsverkefni Unu Stef og Babies-flokksins. Lagið var upprunarlega samið sem þemalag fyrir þættina Ísbíltúr með mömmu þar sem mæðginin Björgvin Franz og Edda Björgvins lenda í alls konar ævintýrum. Tónlistarfólkinu fannst merkilegt, og heilandi, að vinna með gleðipopp í miðjum heimsfaraldri, og vona að þessi gleðin skíni í gegn og hressi faraldursþreytta Íslendinga.


Ómland - Skýjaborgir

Ómland er ný íslensk indí-folk-hljómsveit og gaf nýverið út sitt fyrsta lag, Geymi mínar nætur, sem fékk góðar viðtökur. Í Ómlandi eru þau Þórdís Imsland, Rósa Björg Ómarsdóttir og Helgi Reynir Jónsson. Lagið Skýjaborgir kemur út á morgun og þau fengu Dan Cassidy til liðs við sig á fiðlu.


Hildur Vala - Komin alltof langt

Tónlistarkonan Hildur Vala Einarsdóttir gaf nýverið út lagið Komin alltof langt. Lag og texti er eftir Stefán Má Magnússon. Flytjendur með Hildi Völu eru Bryndís Halla Gylfadóttir á selló og Jón Ólafsson á píanó, bassa og trommuforritun.