Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Hver tapar kúlinu í kappræðum kvöldsins?

Mynd: EPA / EPA
Klukkan eitt í nótt á íslenskum tíma munu þeir Donald Trump og Joe Biden eigast við í síðustu kappræðunum fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum sem fram fara 3. nóvember. Andrés Jónsson almannatengill fer yfir hvernig frambjóðendur eru venjulega búnir undir slaginn og hvernig Trump hefur brotið allar reglurnar.

Á þessu herrans ári 2020 eru nákvæmlega 60 ár liðin frá fyrstu kappræðum forsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum í sjónvarpi en þar tókust á þeir Richard Nixon og John F. Kennedy. Þær kappræður þykja sögulegar, ekki aðeins því slíkar kappræður hafa síðan verið fastur liður í kosningum heldur af því að sjónvarpið breytti þeim skilyrðum sem frambjóðendur þurftu að uppfylla. Almennt er litið á Kennedy sem skýran sigurvegara í þessum kappræðum. Hann hafði styrka framkomu fyrir framan myndavélina, Nixon virtist aðeins stressaður, og svo hafði Kennedy fengið förðun en ekki Nixon sem var helst til fölur og þreytulegur í samanburði og svitnaði undan sterkri lýsingunni. Þeir mættust þrisvar í viðbót og þá gekk Nixon betur en allt kom fyrir ekki. Þann 8. nóvember 1960 stóð John F. Kennedy uppi sem sigurvegari. Þegar Nixon fór næst í forsetaframboð árið 1968 neitaði hann að taka þátt í sjónvarpskappræðum.

Frá árinu 1976 hafa frambjóðendur hins vegar tekist á í sjónvarpi fyrir hverjar einustu forsetakosningar í Bandaríkjunum - líka í ár. Joe Biden og Donald Trump tókust á í september og næstu áttu að vera 15. október en voru felldar niður því Trump neitaði að taka þátt í rafrænum kappræðum. Því fara síðustu kappræðurnar fram í kvöld. Staðan er áhugaverð en það er fyrirbærið kappræður líka. Hvaða þýðingu hafa þær þegar upp er staðið?

Of margir kokkar í eldhúsi Þóru Arnórs

Andrés Jónsson ráðgjafi í almannatengslum þekkir undirbúningsferli slíkrar framkomu stjórnmálamanna mjög vel. Hann kom meðal annars að undirbúningi Þóru Arnórsdóttur fyrir forsetakosningarnar 2012 ásamt fullstórum hópi að hans mati. „Það voru margir sem komu að þeim undirbúningi, það var tiltölulega stór fundur. Kannski of stór,“ rifjar Andrés upp í Lestinni á Rás 1. „Það geta verið of margir kokkar í eldhúsinu í svona framboði, sérstaklega þegar mikið liggur við og spennustigið er hátt.“

Kamala Harris er að tala

Andrés hefur síðan reglulega verið fenginn til að ráðleggja fólki fyrir kappræður og fólki sem mætir öðrum í sjónvarpssal. Hann segir kappræður í raun eins og eins konar leikhús þar sem frambjóðendur bregða sér í gervi og klæða sig upp í þann búning sem kjósendur vilja sjá. „En þetta er líka íþrótt því þeir þurfa að reyna að sjá fyrir hvað hinn frambjóðandinn ætlar að gera og vera tilbúinn með varnar- eða sóknartaktík á móti.“ Það er mikilvægt að mæta til leiks fullur sjálfstrausts, vitandi að maður sé vel æfður og tilbúinn í slaginn. Til að undirbúa fólk skapar Andrés gjarnan aðstæður líkar sjónvarpssetti og spyr frambjóðandann erfiðra spurninga þar til hann er með öll svör á hreinu. „Við gerum æfingu í raunverulegum aðstæðum, leikum það sem við erum að fara að gera svo að þegar við komum í sjónvarpssal gerum við þetta eftir vöðvaminninu okkar,“ segir Andrés. Stundum koma jafnvel augnablik sem líta út fyrir að hafa gerst óvænt en eru í raun þaulæfð. Andrés nefnir meðal annars þegar Kamala Harris, varaforsetaframbjóðandi Demókrata, benti mótframbjóðanda sínum á að grípa ekki fram í fyrir sér og sagði: „Ég er að tala.“

„Markmið hennar var að vera ekki ógnvekjandi sem þessi svarta kona sem þegar var verið að nota rasíska undirtóna gegn,“ segir Andrés. „Hún þurfti að vinna gegn stereótýpunum sem er í raun glatað að þurfa að gera en hún slapp vel frá þessu því hún var yfirveguð, aðlaðandi og vissi auðvitað hvað hún var að gera.“

Trump brýtur reglurnar

Ólíka einstaklinga þarf líka að undirbúa á ólíkan hátt með tilliti til sögunnar og væntinga samfélagsins. „Þegar verið er að undirbúa konur í stjórnmálum undir að keppa við karlmenn er mikilvægt, því karlmenn geta talað yfir konurnar, að kenna þeim að hætta ekki að tala,“ segir Andrés. „Halda orðinu án þess að hækka róminn á móti því þá kemur inn þessi stereótýpa að skrækar konur séu í tilfinningauppnámi.“ Almennt á það við fyrir öll kyn að það virkar sjaldnast að æsa sig í sjónvarpi. „Það lítur eiginlega alltaf illa út. Það eru einstaka undantekningar um að fólk byrsti sig en komi vel út en almennt séð, ef þið fylgist með fólki í sjónvarpi, er ráðgjafi búinn að segja þeim: Vertu með hönd yfir hönd, hafðu stjórn á þér og komdu þér í þægilega hvíldarstöðu,“ segir Andrés „Þú ætlar ekki að hreyfa hendurnar nema þú nauðsynlega þurfir og þú ætlar ekki að vera á iði eða teygja þig í átt að mótherjanum.“

Flestir vita samt að núverandi forseti Bandaríkjanna er alls ekki vanur að tempra tilfinningar sínar þegar hann kemur fram. Þvert á móti baðar hann út öngum, grípur fram í og uppnefnir og sýnir mikinn tilfinningahita. Margir óttast að með þessari framkomu hafi honum tekist að breyta leikreglunum. „Trump hefur brotið allar reglur um innihald og stíl, kurteisi og hvað virkar. Hann snýr því öllu á hvolf,“ segir Andrés. „En þegar hann bauð sig fyrst fram var það partur af því sem gerði hann áhugaverðan kandídat í augum stórs hóps. Með því að brjóta reglurnar sýndi hann að hann væri öðruvísi og að hann væri að fara að breyta þessum stjórnmálum sem fólk var komið með leiða á.“ Almennt séð telur Andrés þó ólíklegt að kollegar hans myndu hvetja neinn til að leika þetta eftir. „Ég held að svona stjórnmálamaður geti ekki orðið til á tilraunastofu kosningaráðgjafa eða almannatengla, sem betur fer,“ segir Andrés og hlær. „En blessunarlega koma menn fram sem brjóta ýmsar reglur og eru að ná trausti út á að vera ekki of pússaðir af mönnum í jakkafötum og konum í dragt.“ Trump hefur að því leyti ekki breytt reglunum, því vill Andrés allavega ekki trúa.

Trump getur enn náð árangri með sinni aðferð

Hvernig ætli það hafi komið út fyrir Trump að neita að mæta andstæðingi sínum í rafrænum kappræðum? „Þarna er hagsmunamat sem á sér stað,“ segir hann. Trump hafi verið meðvitaður um að staða hans myndi líklega veikjast í slíkum kappræðum þar sem formið hentaði hans ræðustíl mjög illa. „Honum hentar að hafa þessa stóru fundi með sínum stuðningsmönnum en honum hentar ekki að vera þar sem hægt væri að setja bönd á hann eins og í þessum kappræðum. Svo hentar honum líka illa að fólk geti komið með gagnrýnar spurningar því hann er mjög hörundsár og vill helst ekki eiga samtal við þá sem ekki eru í teyminu hans,“ segir Andrés. Trump hafi ekki komið vel út úr síðustu kappræðum og ljóst að fylgi hans dalaði, meðal annars á meðal eldri borgara sem fannst hann ganga fram af sér. Og Andrés telur kappræðurnar vega þyngra en umræður um skattamál Trumps og COVID-veikindi hans. „Kappræðurnar eru það sem mest er talið hafa aukið bilið á milli hans og Biden. Þó hann þreytist ekki á að segja að hann hafi unnið kappræðurnar þá trúir hann því líklega ekki sjálfur,“ segir Andrés.

74 milljónir manna horfðu á fyrstu kappræðurnar og margir eru búnir að ákveða hvað þeir ætla að kjósa samkvæmt Andrési. „En það skiptir máli hvað gerist,“ segir Andrés sem rifjar upp kosningarnar 2016 þegar Hillary Clinton tapaði kosningunum þrátt fyrir að kannanir hefðu spáð henni sigri. „Við sáum með Clinton að hann náði að sýna að hann væri jafnoki hennar á sviðinu þó hann notaði sína aðferð en hún þær gömlu. Við skulum ekki afskrifa hann varðandi það að hann gæti náð árangri.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Andrés Jónsson í Lestinni á Rás 1. Kappræðurnar verða sýndar í beinni á RÚV klukkan 01:00.