Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Hellist yfir mann gríðarlega mikil sektarkennd“

22.10.2020 - 19:37
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Bóndi á Stóru Ökrum í Skagafirði neyðist nú til að farga um 800 kindum eftir að riða greindist á bænum. Hann upplifði mikla sektarkennd eftir að málið kom upp og segir erfitt að horfa á eftir ævistarfinu. Fleiri bændur í sveitinni bíða nú milli vonar og ótta um afdrif sinna búa.

Var í marga daga að ná sér

Stóru-Akrar eru í Tröllaskagahólfi sem nær frá austanverðum Skagafirði að Eyjafjarðará auk fremri hluta Eyjafjarðarsveitar. Fram til þessa hafði ekki greinst riða í hólfinu í tuttugu ár að undanskildum Svarfaðardal. Stóru Akrar er mikið ræktunarbú og hafa bændur víða fengið hrúta og lömb sem eru ræktuð þar. Gunnar Sigurðsson, bóndi á Stóru Ökrum 1 upplifið mikla sektarkennd eftir að málið kom upp. 

„Svo náttúrulega hellist yfir mann gríðarlega mikil sektarkennd. Það er vond tilfinning og ég var í raun og veru marga daga bara að ná mér út úr því en svo bara ákveður maður það að. Við getum ákveðið sumt sko og ég ákvað það bara að ég væri ekki sekur,“ segir Gunnar. 

„Það er líka þessi gríðarlega sorg“

Gunnar var að smala síðasta fénu af fjalli í dag þegar fréttastofu bar að garði. Hann segir síðustu daga hafa reynt mikið á fjölskylduna. 

„Það er líka þessi gríðarlega sorg. Ég hugsa að það séu ekkert margir sem að eiga auðvelt með að sjá eftir ævistarfi, það er mjög erfitt. Þetta er nú fyrir það fyrsta fjölskyldusportið, sumir eru með hesta og við erum með kindur og við erum mjög mikið saman í þessu og tengir okkur öll saman.“ 

Óvissa framundan fyrir aðra bændur

Jón Kolbeinn Jónsson, héraðsdýralæknir segir að nú hefjist viðamikil vinna við að kortleggja hversu mikið fé hafi farið af Stóru Ökrum á aðra bæi í sveitinni. „Núna erum við að hafa uppi á þeim einstaklingum sem eru á lífi og svona áhættustýra sýnatöku samhliða því svo bíðum við bara eftir niðurstöðum úr þeim sýnatökum,“ segir Jón. 

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV