Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hariri falið að mynda ríkisstjórn í Líbanon

22.10.2020 - 14:07
epa08764494 Prime Minister-designate Saad Hariri arrives at the presidential palace to meet with President Michel Aoun after he was assigned to form a new government, in Baabda, east of Beirut, Lebanon, 22 October 2020. Hariri is to form a new government to help the country overcome the worst crisis since the civil war in 1975-1990. Aoun held parliamentary consultation on 22 October during which most parliamentarians backed Hariri for the Prime Minister position.  EPA-EFE/WAEL HAMZEH
Saad Hariri kemur til fundar við Michel Aoun forseta. Mynd: EPA-EFE - EPA
Forseti Líbanons fól í dag Saad Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra, að mynda nýja ríkisstjórn. Meirihluti þingmanna á líbanska þinginu féllst á tilnefninguna. Nýja stjórnin verður skipuð sérfræðingum.

Hinnar nýju stjórnar bíða margvísleg verkefni, svo sem að greiða úr bankakreppu og gjaldeyriskreppu, takast á við sívaxandi skuldir ríkisins og aukna fátækt landsmanna. Jafnframt þarf stjórnin að glíma við COVID-19 farsóttina og eftirmál sprengingarinnar miklu í Beirút í ágúst. Hún varð hátt í tvö hundruð manns að bana og olli tjóni sem nemur hundruðum milljarða króna.

Saad Hariri hefur þrívegis áður gegnt embætti forsætisráðherra í Líbanon. Tæpt ár er síðan hann lét síðast af embætti eftir fordæmalaus mótmæli almennings gegn óstjórn og spillingu ráðamanna ásamt sívaxandi efnahagsþrengingum. 

Síðasta tækifærið

Stjórnvöld erlendra ríkja hafa þrýst á Líbana að sniðganga stjórnmálamenn við myndun nýrrar stjórnar; velja frekar sérfræðinga sem hafa þekkingu og menntun til að taka á vandanum. Saad Hariri lýsti því yfir þegar staðfesti að hann hefði fallist á beiðni Michels Aouns forseta að hann ætlaði að fara að þeim ráðum. Sérfræðingar í efnahagsmálum og stjórnarfarsumbótum yrðu meðal hinna nýju ráðherra. Hin nýja stjórn fengi síðasta og eina tækifærið til að koma Líbanon á réttan kjöl, eins og hann komst að orði. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV