Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Greiningum yngstu barnanna frestað vegna COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot  - RÚV
Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins hefur þurft að fresta greiningum yngstu barnanna vegna faraldursins. Þá hefur íhlutun og eftirfylgd með á annað hundrað börnum frestast eða farið fram með óhefðbundnum hætti í október. Þetta segir Soffía Lárusdóttir, forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar, í samtali við fréttastofu.  

Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins annast greiningu barna og ungmenna með þroskaraskanir sem vísað er til athugunar að lokinni frumgreiningu á annarra vegum. Þá veitir stöðin einnig ráðgjöf og fræðslu um viðeigandi íhlutun og önnur úrræði sem þörf er á og hefur langtímaeftirfylgd með þeim börnum sem það þurfa. 

Greiningar efst á forgangslista

Soffía segir að greiningar séu efst á forgangslista Greiningarstöðvarinnar og að íhlutun og eftirfylgd sé frekar slegið á frest, enda fari sú þjónusta gjarnan fram inni á heimilum eða í leikskólum og í sóttvarnaskyni sé ekki talið ráðlegt að senda sérfræðinga þangað.  

Hún segir það mikils virði að greiningar, annarra en yngstu barnanna, geti farið fram þrátt fyrir faraldurinn. Stöðin hafi fengið undanþágu frá nálægðartakmörkunum við gerð þroskaprófa og annarra prófa. Vissulega sé vont að þurfa að fresta greiningum yngstu barnanna, en að mörg þeirra séu viðkvæm og í áhættuhópum vegna COVID-19. Því sé starfsfólk og foreldrar í flestum tilvikum sammála um að bíða með þjónustuna.

Þá hafa ferðir starfsfólks út á land frestast, meðal annars greiningarferðir, og mat á stuðningsþörfum barna legið niðri í október. Ráðgjafar- og fræðsluþjónusta fer að miklu leyti fram á fjarfundum og Soffía segir að tæknin hafi gert starfsfólki kleift að mæta þörfum eftir bestu getu. 

Aðspurð hvaða áhrif það geti haft að greiningum yngstu barnanna sé frestað og þjónusta við eldri börn skert segir hún erfitt að segja til um það, en að vonandi verði hægt að hefja starfsemina sem allra fyrst á ný. Þjónusta Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar stöðvaðist að mjög miklu leyti í fyrstu bylgju faraldursins en Soffía segir að hún hafi farið hratt af stað aftur: „Starfsfólkið sýndi vinnuhörku og keyrði allt af stað.“ Hún bindur vonir við að þjónustan taki við sér af fullum krafti um leið og þriðja bylgjan gengur niður.  

Færri tilvísanir 

Soffía segir að Greiningarstöðinni hafi borist færri tilvísanir, til dæmis frá leikskólum, grunnskólum og heilsugæslustöðvum, í ár en síðustu ár og að starfsfólk velti því fyrir sér hvort áhrif faraldursins kunni að spila inn í: „Það er mikið álag á skólana og á alla opinbera þjónustu,“ segir hún.  

Aðspurð hvort starfsfólkið finni fyrir auknum áhyggjum meðal foreldra vegna COVID-19 segir hún ljóst að faraldurinn hafi mikil áhrif á fjölskyldur barna með fötlun:  „Já, við finnum fyrir meiri áhyggjum, ekki síst því það er almennt minni þjónusta í boði fyrir þennan hóp.“ Hún segir að reynt sé að halda sambandi við foreldrana í gegnum fjarfundabúnað eins mikið og hægt er og að það gangi vel.