Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fæst við dauðann fyrri part dags og lífið á kvöldin

Mynd: RÚV / RÚV

Fæst við dauðann fyrri part dags og lífið á kvöldin

22.10.2020 - 11:00

Höfundar

„Það sem er falið og sussað niður af samfélaginu hefur mér alltaf fundist spennandi,“ segir Þórsteinn Sigurðsson listamaður.

Þórsteinn lærði ljósmyndun og starfar við fagið ásamt því að reka gallerýið Núllið í Bankastræti. Þá hefur hann gefið út bókverk þar sem veggjalist og ýmiss konar jaðarmenningu eru gerð skil. „Ég næ einhvern veginn auðveldlega að tengjast inn í aðstæður sem eru kannski erfiðar og vinna síðan eitthvað út úr því,“ segir Þórsteinn. Meðal útgefinna verka Þórsteins er bókin Container society. „Hún fjallar um tvo menn sem búa í smáhýsum úti á Granda. Mér fannst mikilvægt fyrir mig að fara þarna og sjá í raun og veru hvernig lífi fólkið þarna lifir. Snýst ekki beint um að þeir séu utangarðsmenn heldur meira að þeir séu bara menn sem búa í smáhýsunum. Ég held að ég hafi einhvern hæfileika til að nálgast ákveðna jaðarhópa með bæði virðingu og tengingu,“ segir Þórsteinn.

Sama orkan

Annað bókverk hans nefnist Juvenile bliss og inniheldur myndir sem teknar voru á árunum 2006 til 20017. Það var unnið í samstarfi við listamennina Söru Riel og Bobby Breiðholt. „Það er í raun og veru heimild af tveimur vinahópum, tveimur kynslóðum, á jaðrinum kannski. Hjólabrettamenning, graffíti og fleira sem kannski setur þá þangað. Það var svo mikið líkt með þessum hópum, sama orkan, samt 10 ár á milli.“

Þórsteinn Sigurðsson ljósmyndari.
 Mynd: Þórsteinn Sigurðsson

Í rúm tvö ár hefur Þórsteinn starfrækt gallerýið Núllið í Bankastræti í rými sem hefur gegnt fjölbreyttu hlutverki gegnum tíðina. „Núllið var aldrei beint planið hjá mér. Þegar ég gef út Juvenile Bliss vantaði mig gallerí eða einhvern stað til að halda bókaútgáfuhóf. Finni, sem rekur Pönksafnið og Prikið lánaði mér rýmið til að gefa út þessa bók og í framhaldinu fékk ég bara að halda lyklunum og gat í raun og veru gert sem ég vildi við þetta og úr varð Núllið gallerý,“ segir hann.

Segir ekki nei

Í rýminu eru haldnar fjölbreyttar sýningar sem standa stutt yfir. „Sýningar eru frá fimmtudegi til sunnudags, í hverri viku opnar ný sýning þannig að þetta eru svona örsýningar. Mikil flóra af listamönnum hefur sýnt þarna, byrjendur og lengra komnir. Myndlistarmenn, gullsmiðir, tónlistarmenn, ljósmyndarar, sviðslist, þannig að það er mjög mikil fjölbreytni. Það er eiginlega mottóið hjá mér þar, að ég segi ekki nei við neinum,“ segir Þórsteinn.

Bálstofan á daginn

Meðfram ljósmyndun, útgáfu og gallerýrekstri vinnur Þórsteinn nokkuð óvanalega vinnu. „Ég vinn í því sem kallast Bálstofa í kirkjugörðunum í Fossvogi og þar er líkbrennsla . Ég vinn þar frá 7 til 15 á daginn. Það er líka eitthvað sem við viljum kannski ekki pæla mikið í, dauðinn. Líkbrennsla hljómar mjög brútal, það er kannski partur af mér að ég sæki svolítið í hluti sem eru furðulegir og það er í raun og veru ástæðan fyrir því að ég gaf þessari vinnu séns, mig langaði til að kynnast þessu og svo áttaði ég mig fljótt á því að þetta var bara fín vinna. Kannski skringilegt að heyra að einhver sé að vinna í líkbrennslu en fyrir þann sem vinnur þar er það náttúrulega bara mjög eðlilegt.“

Þórsteinn Sigurðsson ljósmyndari.
 Mynd: Þórsteinn Sigurðsson

Aðspurður segir hann ákveðinn samhljóm að finna í sínum ólíku störfum. „Ég get farið heim úr vinnunni og ekki tekið hana ekki með mér heim. Ég fer bara í sund eða göngutúr með kærustunni, tek hlutina ekki of nærri mér. Svo aftur á móti er mikið líf niðri í Núlli og mikið líf í því að vera ljósmyndari, þú ert alltaf í einhverjum samskiptum þannig að þetta fer ágætlega saman.“

Verk Þórsteins má kynna sér hér

Tengdar fréttir

Menningarefni

Myndaði líf manna í harðri neyslu

Menningarefni

Hulinn heimur fólksins í gámunum