Evrópudeildin: Sverrir Ingi og Albert spiluðu

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot

Evrópudeildin: Sverrir Ingi og Albert spiluðu

22.10.2020 - 19:02
Þrír Íslendingar voru í eldlínunni þegar Evrópudeild karla í fótbolta hófst í dag. Þeir spiluðu ákaflega mismikið.

Arsenal sótti Rapid Vín heim og stóð Bernd Leno í marki Arsenal í leiknum. Mistök hans leiddu til fyrsta marksins sem Taxiarchis Fountas skoraði fyrir Rapid. Mörk frá David Luiz og Pierre-Emerick Aubameyang sáu hins vegar til þess að Arsenal tók öll þrjú stigin. Rúnar Alex Rúnarsson sat á bekknum allan tímann.

Svipaða sögu má segja af Alberti Guðmundssyni og AZ Alkmaar. Þeir sóttu Napoli heim og unnu með einu marki gegn engu. Jesper Karlsson skoraði eina mark leiksins. Albert kom inná á 88. mínútu en þá gerði AZ fyrstu skiptingar sínar í leiknum.

Sverrir Ingi Ingason lék svo allan leikinn fyrir PAOK sem tók á móti Omonia frá Nikósíu á Kýpur. 1-1 fór sá leikur. Eric Bautheac skoraði fyrir Omonia á 16. mínútu en Thomas Murg jafnaði fyrir PAOK á 56. mínútu og þar við sat.

Hörður Björgvin Magnússon er svo í byrjunarliði CSKA Moskvu sem sækir Wolfsberger heim til Austurríkis klukkan 19 en Arnór Sigurðsson er meiddur.

Úrslit síðdegisins:
CSKA Sofia - CFR Cluj 0-2
Young Boys - Roma 1-2
Dundalk - Molde 1-2
Rapid Vín - Arsenal 1-2
Bayer Leverkusen - Nice 6-2
Hapoel Beer Sheva - Slavía Prag 3-1
Lech Poznan - Benfica 2-4
Standard Liege - Rangers 0-2
PAOK - Omonia Níkósía 1-1
PSV Eindhoven - Granada 1-2
Rijeka - Real Sociedad 0-1
Napoli - AZ Alkmaar 0-1