Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

EFTA og Bretar semja um viðskipti eftir Brexit

22.10.2020 - 12:38
Erlent · Brexit · EFTA · ESB · Evrópusambandið · Evrópa · Stjórnmál
Mynd: EPA-EFE / EPA
Bretar og EFTA ríkin hafa náð bráðabirgðasamkomulagi um viðskipti eftir að Bretar yfirgefa Evrópusambandið endanlega um áramótin, að því er AFP fréttastofan segir.  Samningurinn tekur til viðskipta Bretlands við Ísland, Liechtenstein, Noreg og Sviss. AFP fréttastofan hefur eftir talsmanni alþjóðaviðskiptaráðuneytisins í Lundúnum að samkvæmt bráðabirgðasamningunum verði langstærsti hluti viðskipta Breta og EFTA-ríkjanna tollfrjáls áfram.

Viðræðum um framtíðarsamning miðar vel

Þessir samningar gilda uns endanlegir fríverslunarsamningar takast að sögn heimildarmanns AFP, sem bætti við að góður gangur væri í samningaviðræðum um framtíðarsamning. 

Viðræður Breta og ESB hefjast á ný 

Viðræður Breta og Evrópusambandsins um viðskipti eftir Brexit hefjast að nýju síðar í dag er Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, kemur til Lundúna til fundar við David Frost, aðalsamningamann bresku stjórnarinnar. Mikið ber enn í milli í þeim viðræðum og í síðustu viku lá við að þeim yrði endanlega slitið án samnings er Bretar brugðust illa við samþykktum leiðtoga ESB-ríkjanna.

Michel ítrekar samstöðu ESB ríkja

Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, ítrekaði í gær í Evrópuþinginu að sambandið vildi ná samningum - en ekki hvað sem það kostaði. Það er 100 prósent samstaða á meðal okkar, sagði Michel. 

Ætla hittast virka daga og helgar

Ætlunin er að samninganefndir hittist á hverjum degi, virka daga og um helgar, uns samningar hafa tekist. Helstu óleystu ágreiningsefnin eru fiskveiðar, samkeppnisstaða fyrirtækja og hvernig leysa eigi deilumál.