
88 smit á líkamsræktarstöðvum í þriðju bylgjunni
Mörgum brá við á sunnudaginn þegar heilbrigðisráðherra gaf út reglugerð sem heimilar hóptíma í líkamsræktarstöðvum, þvert á tilmæli í minnisblaði sóttvarnalæknis. Margar líkamsræktarstöðvar ákváðu að opna, en aðrir sem mega ekki veita þjónustu klóra sér í kollinum yfir ákvörðuninni. Kolbrún Kristjánsdóttir, hárgreiðslumeistari og einn eigenda Portsins, er ein þeirra.
„Við erum í þeirri stöðu að við þurftum að loka fyrirtækinu okkar ásamt mörgum öðrum og mér finnst þetta dálítið sérstakt,“ segir Kolbrún. „Af því að þú getur sótt lýðheilsuna þína á allt aðra staði en akkúrat inni á líkamsræktarstöðvum.“
Kolbrún segir margt hársnyrtifólk ósátt, mótvægisaðgerðir stjórnvalda dugi þeim ekki, og einfalt sé að gæta sóttvarna á stofunum. Á sama tíma megi fjöldi fólks koma saman í sölum líkamsræktarstöðvanna.
Samstaðan rofin
Bæði sóttvarnalæknir og landlæknir ræddu um það á upplýsingafundi almannavarna í dag, að ákvörðunin hefði valdið ákveðnu uppnámi.
„Mér þykir leitt að verða vitni að þeim óróa sem hefur komið upp í kjölfarið á útgáfu minnisblaðsins og reglugerðanna, en ein af ástæðum þess er vafalaust sú að reglugerðirnar og minnisblaðið eru í mörgum tilvikum óskýr og í einstaka tilvikum misvísandi,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Alma D. Möller landlæknir sagði að yfirvöld yrðu að vera meðvituð um að auka ekki á farsóttarþreytu meðal landsmanna: „Því er mikilvægt að forðast misræmi í aðgerðum með því að leyfa eitt en banna annað án þess að útskýra vel af hverju.“
Flest smit innan fjölskyldna - 88 í ræktinni
Samkvæmt tölum Íslenskrar erfðagreiningar um það hvar fólk hefur smitast í þriðju bylgju faraldursins sést að alls smituðust 1855 manns af Covid-19 á tímabilinu 18. september til 19. október.
- Alls 1855
- Innan fjölskyldu 739
- Félagslíf 363
- Líkamsrækt 88
- Barir 72
- Veislur 22
- Veitingastaðir 10
- Íþróttir 9
- Vinna 270
- Sjómenn 34
- Heilbrigðisstarfsfólk 32
- Löggæsla 7
- Skólar (nemendur og starfsfólk) 112
- Leikskólar 34
- Grunnskólar 66
- Framhaldsskólar 8
- Háskólar 4
- Óþekktur uppruni 371
- Líkamsrækt 26 (óvíst með smit en skráð mæting)
- Barir 7
- Veitingastaðir 4
Hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra fengust þær upplýsingar að einhver smit hefðu verið rakin til snyrti- og hárgreiðslustofa, en ekki hversu mörg þau hefðu verið.
Eðlilegt að misstíga sig
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kveðst ekki geta svarað því hvort reglugerðinni verði breytt.
Voru þetta eftir á að hyggja mistök hjá ráðuneytinu?
„Efnislega var ekkert annað hægt að gera, vegna þess að við verðum að gæta að þessum reglum um jafnræði og meðalhóf,“ segir Svandís. „Við höfum náttúrulega nú þegar talað fyrir ótrúlegum fjölda af ákvörðunum frá því í febrúar. Ég held að það sé í sjálfu sér eðlilegt að við misstígum okkar á langri leið.“
Þau Þórólfur tali saman daglega til að fara yfir stöðuna, en draga þurfi lærdóm af misræminu, þau þurfi að vanda sig ennþá betur.
„Við ætlumst til þess að almenningur sýni samstöðu, og þá verðum við að gæta að trúverðugleikanum og því að sóttvarnaryfirvöld séu samstíga og einróma,“ segir Svandís.