Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vonast enn eftir góðri loðnuvertíð og betri á næsta ári

21.10.2020 - 09:25
Mynd með færslu
 Mynd: Sighvatur Jónsson - RÚV
Útgerðarmenn segja ótímabært að óttast loðnubrest og eru bjartsýnir á ágæta vertíð í vetur. Mikið mælist af ungloðnu og aðeins einu sinni áður hefur meira fundist í fjörutíu ára mælingasögu. Það gæti verið ávísun á enn stærri loðnuvertíð þarnæsta vetur.

Síðast þegar loðna var veidd við Ísland 2018 skiluðu veiðarnar um 18 milljörðum króna í útflutningstekjur. Eftir loðnubrest tvö ár í röð gaf góð mæling á ungloðnu haustið 2019 fyrirtækjum eins og Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði fyrirheit um gjöfula vertíð í vetur. Nú ári síðar fannst hún ekki sem fullorðin hringingarloðna, mögulega vegna þess hve erfiðlega gekk að leita en mikill hafís var á leitarsvæði við Grænland. Næg loðna til að gefa út kvóta gæti fundist í næstu leit í janúar og febrúar. 

Ungloðnan gæti gefið vertíð eftir áramót

 „Ísinn var ákveðið vandamál í þessum leiðangri heyrist okkur þannig að það er líklegt að hluti af stofninum hafi verið undir ís. Við erum bjartsýnir á að það finnist loðna í vetur af því að ungloðnumælingin í fyrra tókst mjög vel. Þá voru 82 milljarðar einstaklinga sem á að gefa ágæta loðnuvertíð,“  segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar og vísar til mælinga á stofninum síðasta haust.

Stór árgangur í pípunum

Finna þarf 50 milljarða einstaklinga til að mælt sé með veiði. Eftir rannsóknir síðasta haust mælti HAFRÓ með 170 þúsund tonna kvóta en sá kvóti var afturkallaður þegar ungloðnan fannst ekki sem hrygningarloðna. Mælingar á ungloðnu hafa í gegnum árin verið vísbending um það sem koma skal í veiði og athygli vekur að nú mældist mjög mikil ungloðna, 146 milljarðar einstaklinga sem gefur von um að þarnæsta vertíð árið 2022 verði mjög gjöful. Aðeins einu sinni áður hefur mælst meira, en það var árið 1995. „Þetta lítur bara vel út. Þessar fréttir frá Hafrannsóknarstofnun þær eru nú ekki eins neikvæðar og var verið að túlka fyrir helgi. Við erum bara hæfilega bjartsýnir á að það verði ágætar vertíðir núna tvær næstu,“ segir Friðrik.

Markaðurinn fyrir loðnu og loðnuhrogn er galtómur og því mikilvægt að sinna honum í vetur. „Þetta er gífurlega mikilvægt fyrir fyrirtæki og þjóðarbúið. Sérstaklega núna þegar aðstæður eru nú ekki mjög skemmtilegar,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.

Rætt var við hann í 22 fréttum sjónvarps í gærkvöld. Horfa á fréttatíma