Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Vísindamenn telja köld böð minnka líkur á heilabilun

21.10.2020 - 04:04
Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV/Landinn
Vísindamenn telja mögulegt að það geti dregið úr líkum á heilabilun að stunda sund í köldu vatni. Slíkur lífstíll hefur um nokkra hríð verið talinn vænlegur í baráttunni við þunglyndi.

BBC greinir frá að vísindamenn við Cambridge-háskóla sem hafa fylgst með fólki sem hefur nýtt sér óupphitaða sundlaug í Lundúnum hafa uppgötvað að líkamar þess framleiði prótín sem talið er að geti hægt á heilabilun.

Rannsóknirnar eru enn á fyrstu stigum en byggja á eldri rannsóknum sem sýna að kuldi eykur framleiðslu á prótíninu RBM3 sem tengir taugamót í hiela að nýju.

Svipað eigi sér stað í heilum dýra sem leggjast í hýði eða vetrardvala. Þar sem sund í ísköldu vatni hentar ekki öllum og getur jafnvel verið hættulegt fólki með undirliggjandi sjúkdóma standa vísindamennirnir frammi fyrir þeirri ásorun að framleiða lyf sem örvar framleiðslu prótínsins.

Þeir verða auðvitað líka að sanna að það dragi raunverulega úr líkunum á heilabilun. Giovanna Mallucci sem stjórnar rannsóknarstofnun um heilabilabilun við Cambridge-háskóla segir í viðtali við BBC að það væri stórkostlegt að geta frestað því að heili fólks tæki að bila, jafnt heilsufarslega sem efnahagslega.