Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill lögregluna á fund allsherjarnefndar vegna fánanna

21.10.2020 - 15:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hefur óskað eftir því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu komi á fund allsherjar-og menntamálanefndar til að ræða rasisma innan lögreglunnar og aðferðir til þess að sporna við honum. Tilefnið er þriggja ára gömul mynd af lögreglukonu og sýnir þrjá fána sem hún er með innanklæða. Lögreglukonan hafnar því að fánarnir séu rasískir og segir marga lögreglumenn vera með einhver tákn innanklæðar.

Þórhildur ræddi málið undir fundarliðnum störf þingsins.

Þar sagði hún annan fánann sem sæist á myndinni vera merki hvítra þjóðernissinna og síðan væri þarna einnig táknmynd andhetjunnar Refsarans eða Punisher sem væri táknmynd lögreglunnar vestanhafs sem refsandi afls. „Þeirra sem taka lögin og refsingar í eigin hendur og sneiða framhjá réttarkerfinu.“

Skilaboðin væru þau að lögreglan hefði það hlutverk að refsa borgunum fyrir ætluð lögbrot þeirra, rétt eins og Refsarinn. „En slíkt getur ekki talist æskilegt í samfélagi sem segist að minnsta kosti styðja betrunarstefnu og réttarríki.“

Það væri vissulega jákvætt að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði ítrekað við allt sitt starfsfólk að lögreglumenn ættu ekki að bera nein merki sem ekki væru viðurkennd á lögreglubúningi. 

Það að lögreglukonan hefði sjálf sagt að merkin væru notuð af mörgum lögreglumönnum og að hún teldi þau ekki þýða neitt neikvætt benti til þess að annað hvort skorti mikilvæga fræðslu lögreglunnar um rasísk og ofbeldisfull merki. „Eða að rasismi og ofbeldisfull menning fær að grassera innan lögreglunnar. Hvoru tveggja er óásættanleg staða.“