Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

UNICEF á Íslandi innkallar ólöglegar barnapeysur

21.10.2020 - 16:56
Mynd með færslu
 Mynd: UNICEF
UNICEF á Íslandi hefur innkallað barnapeysur, sem settar voru í sölu sem hluti af fjáröflun fyrir starfsemi samtakanna, vegna þess að böndin í hettum og í hálsmáli peysanna geta valdið hættu á kyrkingu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Neytendastofu sem tekur fram að innköllunin varði einungis peysur sem eru í barnastærðum.

Böndin í hettunum eru ekki í samræmi við lög um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu. Ekki er heimilt að hafa bönd eða reimar í hálsmáli fatnaðar sem ætlaður er börnum yngri en sjö ára. Í barnafatnaði fyrir börn sjö til fjórtán ára mega bönd eða reimar í hálsmáli ekki standa lengra en 75 millimetra út úr flíkinni.

„Af öryggisástæðum vilja samtökin benda þeim sem keypt hafa umræddar peysur að fjarlægja böndin úr peysunum eða skila peysunni til UNICEF á Íslandi,“ segir í tilkynningunni. Samtökin hafa þegar hringt í alla sem keyptu peysuna.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV