Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Trump hætti í miðju viðtali við 60 minutes

Mynd: EPA-EFE / EPA
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hætti í miðju viðtali við fréttaskýringaþáttinn 60 mínútur í gær og veittist svo í tístum og á kosningafundi að Leslie Stahl sem tók viðtalið.  Samkvæmt frásögn bandarískra fjölmiðla mislíkaði forsetanum ágengni Leslie Stahl og reiddist henni vegna spurninga hennar. Þau höfðu rætt saman í 40 mínútur er gert var hlé og Mike Pence, varaforseti, átti að vera með í síðari hluta viðtalsins. Forsetinn ákvað þá að nóg væri komið.

Forsetinn tístir og ræðir um Stahl á kosningafundi

Skömmu síðar tísti Trump um að Leslie Stahl væri ekki með grímu. Síðar sagðist hann íhuga að birta viðtalið óklippt áður það yrði sýnt á sunnudag svo allir gætu séð að það væri hlutdrægt og falsfréttir. Trump tók málið einnig upp á kosningafundi í gærkvöld. Hann hvatti fólk til að horfa, það myndi njóta þess en Leslie Stahl yrði ekki ánægð.

Pennsylvanía mikilvægt ríki í kosningunum

Fundur Trumps í gærkvöld var í Pennsylvaníu, sem er eitt af ríkjunum sem fréttaskýrendur segja að forsetinn verði að vinna til að eiga von um endurkjör. Trump vann þar frekar óvænt 2016. Samkvæmt samantekt vefsíðunnar FiveThirtyEight á nýlegum könnunum er Joe Biden, frambjóðandi Demókrataflokksins, með rúmlega sex prósentustiga forystu í Pennsylvaníu. Á landsvísu er Biden með rúmlega tíu prósentustiga forystu þegar tæpar tvær vikur eru til kosninga. Samkvæmt kosningalíkani breska tímaritsins The Economist fengi Joe Biden 350 kjörmenn ef kosningar væru nú, en Trump 188.