Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þórólfur segir færri smit sóttvörnum fólks að þakka

21.10.2020 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir faraldurinn vera á niðurleið, miðað við tölur dagsins. Hann þakkar það framtaki fólks í sóttvörnum en minnir á að þessi viðureign við veiruna er ekki búinn.

45 ný innanlandssmit greindust í gær í ríflega sautján hundruð sýnum. Það eru aðeins færri ný smit en greinst hafa síðustu daga. Nú eru 23 á sjúkrahúsi með COVID-19 og þrír á gjörgæslu. 24 voru ekki sóttkví við greiningu í dag.

Nýgengi innanlandssmita er nú 266,2 sem er minna en í gær. Nýgengið heldur þess vegna áfram að lækka og svo virðist sem að kúfnum í þessari bylgju faraldursins hér á land hafi verið náð.

„Þetta eru bara ágætar tölur og þær sýna það að þróunin er ennþá niður á við. Nýgengið er að ganga niður,“ segir Þórólfur. „Ég held að það megi bara þakka það þessum aðgerðum sem hafa verið í gangi núna undanfarnar rúmar tvær vikur. Ég þakka það bara þátttöku og samstöðu einstaklinga allra sem hafa tekið þátt í þessu. Það er það sem skiptir öllu máli.“

Nú ríður á að fólk haldi áfram að fara varlega. Ef þessi þróun haldi áfram verður hægt að aflétta takmörkunum á næstunni.

„Þetta þýðir það líka að við verðum bara að halda áfram. Við megum ekki gefast upp og hver og einn verður að passa sig og gæta að sínum smitvörnum. Á þann hátt verður hægt að slaka á þessum takmarkandi aðgerðum vonandi bara eins fljótt og hægt er,“ segir Þórólfur.

Þórólfur minnir á atriðin þrjú sem fólk þarf að hafa í huga þegar kórónuveirufaraldurinn geisar.

  • Forðast alla hópamyndun
  • Fjarlægðartakmörk og tveggja metra reglan. Annars að nota grímu.
  • Sótthreinsun, handþvottur og spritt á hendur.