Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tékkar herða aðgerðir gegn veirunni enn frekar

21.10.2020 - 16:10
epa08761844 A handout picture made available by Czech Ministry of Defence shows a Czech army soldier moving a hospital bed as army prepares a healthcare facility in the complex at the exhibition grounds in Prague?s suburb Letnany, Czech Republic, 21 October 2020. Czech army are building an area for 500 hospital beds for COVID-19 patients outside of hospitals. The Czech Republic recorded a rise in the COVID-19 disease, an increase in newly detected infections exceeding 11,000 in last days, resulting in the government to impose a series of new further restrictive measures from 22 October.  EPA-EFE/Michal Voska/Ministry of Defence of the Czech Republic HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - Varnarmálaráðuneyti Tékkland
Stjórnvöld í Tékklandi hyggjast herða enn frekar ráðstafanir til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar. Ástandið er hvergi verra meðal ríkja Evrópusambandsins. Leiðtogafundur hefur verið boðaður til að ræða ástandið í álfunni.

 

Roman Prymula heilbrigðisráðherra greindi frá því í dag að landsmönnum yrði bannað að vera á ferðinni nema til og frá vinnu, til að gera heimilisinnkaupin eða til að leita sér læknisaðstoðar. Öllum verslunum verður lokað, nema matvöru- og lyfjaverslunum. Þá verður fólki bannað að hittast.

Þetta bætist við að tékknesk stjórnvöld hafa þegar skipað landsmönnum að vera með hlífðargrímu svo til hvar sem er. Skólum, veitingahúsum, börum, kvikmynda- og leikhúsum, söfnum og sundlaugum hefur og verið lokað um allt land.

Ástandið í ESB-ríkjunum er hvergi jafn slæmt og í Tékklandi, þar sem ekki hefur tekist að hefta útbreiðslu veirunnar til þessa, þrátt fyrir umfangsmiklar aðgerðir. Sjúkrahús í landinu eru nánast full. Stjórnvöld hafa falast eftir erlendri aðstoð. Um það bil 30 læknar eru væntanlegir á næstunni frá Bandaríkjunum til að aðstoða tékkneska starfsbræður sína og systur. Pöntuð hafa verið hátt í tvö þúsund sjúkrarúm. Þau á að nota á bráðabirgðasjúkrahúsi sem verið er að reisa í úthverfi höfuðborgarinnar Prag.

Leiðtogar Evrópusambandsríkja ætla að ræða útbreiðslu kórónuveirunnar í Evrópu á fjarfundi sem boðaður hefur verið 29. október. 
 

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV