Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Skemmdir vegna stóra jarðskjálftans

21.10.2020 - 18:28
Mynd með færslu
 Mynd: Krónan
Nokkrar skemmdir urðu á eignum fólks þegar stóri jarðskjálftinn varð á Reykjanesskaga í gær. Búist er við fleiri tilkynningum um tjón og skemmdir á næstunni.

Náttúruhamfaratrygging Íslands greiðir fólki bætur ef það verður fyrir tjóni í náttúruhamförum. Náttúruhamfarir eru til dæmis jarðskjálftar, eldgos og snjóflóð. Nokkrar tilkynningar hafa borist um tjón eftir jarðskjálftann í gær. Hulda Ragnheiður Árnadóttir er framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands. Hún gerir ráð fyrir tjón hafi orðið fyrir tugi milljóna króna.

Hulda Ragnheiður segist hafa fengið 3 tilkynningar um minni háttar tjón á hlutum á heimilum fólks. Þær voru allar af höfuðborgarsvæðinu. „Það er algengt í svona málum að það séu til dæmis stórir flatskjáir sem falla um koll. Í þessum tjónum er einmitt um að ræða svoleiðis atburði,“ segir Hulda Ragnheiður.

Hægt er að tilkynna tjón af völdum náttúruhamfara á vefsíðunni nti.is. Hulda Ragnheiður segir að ekki sé vitað hvort hús skemmdust í Krýsuvík. Krýsuvík er nálægt upptökum skjálftans. „En mér finnst nú líklegt að við setjum okkur í samband við þá þegar fer að líða á daginn. Það er kannski líklegast að þar hafi orðið tjón af öllum stöðum,“ segir hún.

Hulda býst við að fleiri tilkynningar berist á næstunni.

 

annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur