Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skærur halda áfram milli Ísraels og Palestínu

21.10.2020 - 00:58
Mynd með færslu
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. Mynd:
Ísraelskar herþotur og -þyrlur gerðu í gær árás á suðurhluta Gaza-svæðisins til þess að eyðileggja jarðgöng sem Hamas-liðar eru sagðir hafa lagt yfir til Ísraels.

Að sögn palestínskra yfirvalda hæfðu herflugvélarnar tvö skotmörk í Khan Yunis og Deir al-Balah. Áður en til loftárásanna kom hafði eldflaugum verið skotið frá Khan Yunis á Ísrael án þess að valda manntjóni eða skemmdum á mannvirkjum, að sögn talsmanns ísraelska hersins.

Enginn lýsti yfir ábyrgð á eldflaugaárásunum. Nokkrum klukkustunum áður tilkynnti Ísraelsher að áðurnefnd jarðgöng hefðu verið uppgötvuð. Jonathan Conricus, talsmaður hersins, kveður göngin vera rof á fullveldi Ísraels. Hann segir ísraelsk yfirvöld ekki vita hver hefði grafið þau en að Hamas bæri ábyrgð á hverju því sem gerðist á palestínsku landsvæði.

Nálægar byggðir Ísraela hefðu þó ekki verið í hættu vegna þessa. Benjamin Netanyahu forsætisráðherra sagði í yfirlýsingu að Ísrael héldi áfram að bregðast af hörku við hverri ógn við fullveldi ríkisins eða borgara þessa.

Alls hafa fundist um tveir tugir gangna frá Gaza til Ísraels frá árinu 2014 að sögn Conricus. Undir lok ágústmánaðar síðastliðins náðu Ísraelar og Palestínumenn samkomulagi um að láta af gagnkvæmum árásum, fyrir milligöngu ríkisstjórnar Katar.

Tilgangurinn var viðhalda viðkvæmum vopnahléssamningi sem Egyptar höfðu komið á. Þrisvar hefur komið til vopnaðra átaka milli Hamas og Ísraels síðan 2008 og fjöldamargar skærur hafa blossað upp þess á milli.