Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Samningafundur í skugga verkfallsboðunar

21.10.2020 - 07:42
Mynd með færslu
OECD telur framleiðni vera í lagi í áliðnaði. Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Fundur í kjaradeilu Rio Tinto í Straumsvík og fimm verkalýðsfélaga verður hjá ríkissáttasemjara í dag. Verkfall skellur á í álverinu á föstudag, semjist ekki fyrir þann tíma.

Upphaflega átti verkfallið að skella á síðasta föstudag, en samkomulag náðist um að fresta því um viku til að gefa samninganefndum meiri tíma til að reyna að ná samningi. Síðast var fundað hjá ríkissáttasemjara á mánudag og eftir þann fund sagði Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari að samtalið hafi verið virkt og gott og samningsaðilar fengið ákveðin verkefni og ákveðið hefði verið að funda á ný í dag.

Komi til verkfalls nær það til starfsmanna í verkalýðsfélaginu Hlíf, Félagi iðn- og tæknigreina, Rafiðnaðarsambandinu, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna og VR, alls um 400 starfsmanna. Verkfallið sem boðað er á föstudag er eins dags skæruverkfall, en ótímabundið allsherjarverkfall er boðað 1. desember, verði ekki búið að semja.

Samningar félaganna hafa verið lausir síðan í byrjun júlí, en samið hafði verið um launahækkun í mars með þeim fyrirvara að Rio Tinto næði nýjum raforkusamningum við Landsvirkjun fyrir lok júní. Þegar það tókst ekki féllu samningarnir úr gildi og var deilunni vísað til ríkissáttasemjara. Rio Tinto hefur lengi verið ósátt við raforkuverðið sem Ísal greiðir Landsvirkjun og hafa stjórnendur fyrirtækisins sagt að jafnvel komi til greina að loka álverinu varanlega.