Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Samherji stefnir á að gera yfirtökutilboð í Eimskip

21.10.2020 - 13:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Félagið Samherji Holding hefur aukið hlut sinn í Eimskipafélaginu og á nú yfir 30 prósent í félaginu. Í tilkynningu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, til Kauphallarinnar segir að félagið geri yfirtökutilboð til hluthafa Eimskips í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti og að Samherji stefni ekki á að skrá félagið úr Kauphöllinni.

Samkvæmt tilkynningunni er hlutur Samherja nú 30,28 prósent ef tekinn er með í reikninginn 2,93 prósenta hlutur í gegnum framvirka samninga. 

Þetta er í annað sinn á þessu ári sem Samherji eignast meira en 30 prósenta hlut í Eimskipafélaginu en í mars barst Kauphöllinni sambærileg tilkynning og nú um að Samherji myndi gera öðrum hluthöfum yfirtökutilboð. Stuttu síðar óskaði félagið eftir undanþágu frá tilboðsskyldu vegna breyttra skilyrða á fjármálamarkaði eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á. Fjármálaeftirlitið féllst á að veita undanþágu, og í millitíðinni hafði Samherji minnkað hlut sinn í félaginu.