Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Riðuveiki staðfest á Stóru-Ökrum 1

21.10.2020 - 14:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Staðfest hefur verið að riðutilfelli á Stóru-Ökrum 1 í Skagafirði er hefðbundin smitandi riða. Héraðsdýralæknir segir að allt fé á bænum verði skorið niður. Þetta sé mikið áfall fyrir bændur á þessu svæði, sem hefur verið riðulaust í 20 ár.

Það var á föstudag sem Matvælastofnun tilkynnti að grunur væri um að riðuveiki hafi komið upp á Stóru-Ökrum 1. Jón Kolbeinn jónsson, héraðsdýralæknir Norðvesturumdæmis, segir að nú hafi verið staðfest að þetta er hefbundin smitandi riða.

Allur bústofninn verði skorinn niður

„Það fór því eins og við óttuðumst,“ segir hann. Þegar hafi verið óskað eftir því að atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið fyrirskipi niðurskurð á öllu fé á bænum. Nú sé beðið úrskurðar frá ráðuneytinu. Á Stóru-Ökrum er um 800 fjár, þar af 500 fullorðið.

Mikið áfall 

Bærinn er í Tröllaskagahólfi og þar hefur ekki komið upp riða síðan árið 2000. Jón Kolbeinn segir þetta því mikið áfall. Nú tejist Tröllaskagahólf sýkt hólf og allur flutningur geit- og sauðfjár innan hólfsins sé bannaður.

Hann segir að nú verði farið í rannsóknir á því hvers vegna riða greindist á Stóru-Ökrum 1. Gripir sem hafi komið og farið frá búinu verði rannsakaðir og tekin verði sýni úr sauðfé í Tröllaskagahólfi. Enginn grunur sé um að fé hafi verið flutt milli sýktra hólfa.