Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Rannsaka áhrif COVID-19 á ónæmiskerfið

21.10.2020 - 11:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Björn Rúnar Lúðvíksson, yfirlæknir á ónæmisfræðideild Landspítalans, lýsir framförum í meðferð við sjálfsofnæmissjúkdómum sem kraftaverki. Hér áður fyrr hafi fólk dáið úr sumum þessara sjúkdóma en það gerist varla í dag. Nú er að fara af stað rannsókn á áhrifum COVID-19 á ónæmiskerfið en vitað er að pestir og önnur áföll geta valdið sjálfsofnæmissjúkdómum.

Kraftaverkið 

Milli sex og átta prósent þjóðarinnar þjást af sjálfsofnæmissjúkdómum og þessir sjúkdómar eru fjölmargir, allt að 200 talsins. Þekktustu sjúkdómarnir eru líklega skjaldkirtilssjúkdómar, vöðvaslensfár, MS sjúkdómurinn, sykursýki, sérstaklega sykursýki 1, en svo eru fjölkerfasjúkdómar eins og gigtarsjúkdómar, lupus eða rauðir úlfar, iktsýki, fylgiliðagigt, hryggikt og margir sjúkdómar í húð eins og t.d. sóríasis. Líka sjúkdómar í meltingarfærum, bólgusjúkdómar í görn og margir æðabólgusjúkdómar í börnum svo nokkuð sé nefnt. 

Sjúkdómarnir hafa verið þekktir lengi en þekkingin á þeim hefur aukist gríðarlega, segir Björn Rúnar Lúðvíksson, og hann hefur orðið vitni að kraftaverki. Þekking á bólgusjúkdómum samfara aukinni þekkingu í erfðafræði hafi orðið til þess að dýpri skilningur er á eðli þessara sjúkdóma. 

Björn Rúnar fór í sérnám til Bandaríkjanna árið 1989. Hann segir að það hafi verið alger forréttindi fyrir hann sem starfandi lækni að verða vitni að þessari þróun. Líftæknilyfin hafi skipt sköpum. „Amma mín var til dæmis gríðarlega illa farin af iktsýki, með ónýtar hendur og gat lítið sinnt af verkum en var ótrúlega öflug kona. Slíka sjúkdómsmynd sér maður ekki í dag.“ Það sé kraftaverk að verða vitni að þessu. Hann hafi meðhöndlað einstaklinga með miklar liðskemmdir og líffæraskemmdir vegna þessara sjúkdóma. Allt að 90% þeirra sem fengu suma sjúkdómana hafi hreinlega dáið úr þeim en það sé fátítt nú á dögum. „Það bara gerist varla, þannig að þetta er gríðarleg breyting á tiltölulega skömmum tíma.“

Sýkingar geta valdið sjálfsofnæmissjúkdómum

Þó nokkkur hluti sjálfsofnæmissjúkdómanna er arfgengur, segir Björn Rúnar. Þá fæðist fólk með einhvers konar genagalla sem verða til þess að starfsemi ónæmiskerfisins fer úr böndunum eða er ekki eðlileg. Lífsstíll fólks, reykingar, drykkja og ofát getur líka aukið hættuna á sjálfsofnæmissjúkdómum. Einnig er nú vitað að nokkuð stór hluti þessara sjálfsofnæmissjúkdóma orsakast af því að ónæmiskerfið verður fyrir einhverju áfalli eða venjulegri sýkingu.

COVID-19 getur verið slíkt áfall fyrir líkamann og því er nú að fara af stað rannsókn á áhrifum hans á ónæmiskerfið.  Björn Rúnar segir að það eigi eftir að koma í ljós hvort einhver tengsl verða milli þessa faraldurs og sjálfsofnæmissjúkdóma. „En bara miðað við aðrar veirusýkingar, bara inflúensu og fleiri sýkingar geta gert þetta, þ.e. geta valdið þessum sjúkdómum. Það mun ekki koma okkur á óvart en vonandi verður sá hundraðshluti mjög lítill eins og verið hefur um aðrar veirusýkingar.“

Umsókn um rannsókn á tengslum COVID-19 og ónæmiskerfisins liggur inni hjá Vísindasiðanefnd og ef allt gengur að óskum má búast við fyrstu niðurstöðum rannsóknarinnar í mars eða apríl, segir Björn. 

Fólk á að stunda ónæmisdekur

Áhrif skæðrar flensu eða alvarlegra pesta á ónæmiskerfið hefur lengi verið þekkt og vitað að þær geta orðið til þess að fólk fái sjálfsofnæmissjúkdóma. Og ekki bara pestir heldur líka andleg áföll segir Björn. Hann hvetur fólk til að stunda ónæmisdekur og segir að það sé nokkuð einfalt. „Það er bara að fara vel með sig. Það hefur sýnt sig að þolþjálfun hún þarf ekki að vera mikil þú þarft bara að hreyfa þig tuttugu til þrjátíu mínútur tvisvar til þrisvar í viku til að fá verulega marktæk áhrif, starfsemi ónæmiskerfisins til góða auk fjölda annarra áhrifa, andlegra og líkamlegra. Það gefur betra útlit meira að segja.“ Einnig að borða hollan mat, sofa vel og sleppa því að reykja og taka inn skaðleg efni. Vítamín skipta líka máli. Yfirleitt þurfi fólk ekki að taka vítamín aukalega ef það er á eðlilegu mataræði en vitað sé að C-vítamín, mörg B-vítamín, snefilefni og zink og ekki síst D-vítamín hafi mikið að segja fyrir eðlilega starfsemi ónæmiskerfisins.  

Lærifaðir í broddi fylkingar í Bandaríkjunum

Björn Rúnar var við nám í Bandaríkjunum þegar baráttan við HIV-veiruna var í algleymingi og starfaði einnig hjá Anthony Fauci sem hefur verið áberandi núna því hann er helsti sérfræðingur Bandaríkjastjórnar í smitsjúkdómum.  

„Þannig að mér finnst þetta svolítið déjà vu núna að koma í þennan COVID- faraldur og aftur er minn gamli lærifaðir í fararbroddi í Bandaríkjunum. Ótrúlegt maður kominn langt á níræðisaldur aldur, vinnur eins og skepna.“

Stórkostlegt að sjá vaxandi samstarf vísindamanna

Mesti lærdómurinn sem hann dragi af þessari pest sé vaxandi von. „Ég er svo ofboðslega ánægður með hvað þetta hefur orðið til þess að fá fólk til að snúa bökum saman og vinna sameiginlega að markmiðum í stað þess að vera í of mikilli samkeppni, þó að samkeppni sé allaf góð.“  Faraldurinn hafi öðru fremur leitt til þess að vísindamenn, rannsóknahópar og vísindasamfélög vinna meira saman og deila upplýsingum til þess að sigrast á óvininum. Þetta sé lærdómur sem verði tekinn með í áframhaldandi baráttu við aðra sjúkdóma sem hafi ekkert að gera með COVID-19. „Það má segja að eftirvænting mín sé mest á því sviði.“  Stórkostlegt hafi verið að sjá hvað hratt hafi tekist að finna út hvað olli COVID-19 og að vera komin mjög nálægt því að finna lækningu eða fyrirbyggjandi aðgerðir gegn honum. „Það er stórkostlegt.“

 

 

 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV