Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Opnaði búð til að gefa fjörutíu ára fatasafni nýtt líf

21.10.2020 - 20:30
Mynd: Kristinn / rúv
„Ég man aldrei eftir mér öðruvísi en að hafa áhuga á fötum,“ segir kona sem nýverið fór á eftirlaun og opnaði verslun þar sem hún selur fatasafn sitt til fjörutíu ára. Hún vill gefa fötunum nýtt líf og segir nýjan kafla vera að hefjast, þar sem hún ætlar að einbeita sér að myndlist og barnabörnum sínum fimmtán. 

Á Freyjugötu fjórtán opnaði á dögunum lítil verslun með notaðar flíkur. En þetta er engin venjuleg búð. Fötin sem þar eru til sölu eru öll í eigu Mögnu Fríðar Birnis hjúkrunarfræðings. 

„Heyrðu fataáhuginn er bara meðfæddur. Ég á mömmu sem er níutíu ára og hún er enn þá með svona mikinn fataáhuga. Þannig ég held að hann hafi bara komið með móðurmjólkinni. Ég man aldrei eftir mér öðruvísi heldur en að hafa áhuga á fötum,“ segir Magna.

150 fatapokar í geymslunni

Fötin hafa undanfarin ár verið í geymslu sem þau hjónin eiga. 

„Svo fór að leka í þessari geymslu og þá voru góð ráð dýr. Ég fékk allt í einu hundrað og fimmtíu poka í fangið. Og bóndinn var ekki tilbúinn að hafa fulla geymslu af hundrað og fimmtíu fatapokum, þannig þetta er lausnin,“ segir Magna.

Mikilvægast að efnin séu góð

Flíkurnar koma úr ýmsum áttum, mörkuðum, verslunum og netinu auk þess sem Magna hefur látið sauma á sig ýmislegt. Mikilvægast finnst henni að efnin séu góð. 

„Ég hef alveg leyft mér að kaupa svona Armani. Þetta er silki og lambaskinn. Ég held það séu nú ekkert margir sem eiga svona. Mér fannst líka ægilega gaman þegar ég gat farið í svona hlébarðaleðurkjól, en hann er fulllítill núna,“ útskýrir Magna á meðan hún sýnir fréttamanni glæsilegar flíkur.

Vill einbeita sér að myndlist og barnabörnunum

Magna hætti nýverið að vinna en hefur verið að læra myndlist, sem nú á hug hennar allan ásamt barnabörnunum. Því sé kominn tími til að aðrir fái að njóta fatanna.

„Ég á fimmtán barnabörn og von á einu langömmubarni. Þegar ég horfi til baka þá er lífið allt svona kaflar og þessi kafli er bara búinn. Ég er komin þangað, þessi kafli var yndislegur, ég þarf ekki meir og nú mega þessi föt bara öðlast nýtt líf. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV