Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ný stjórnarskrá ratar á Alþingi í dag

Mynd með færslu
Ljósmynd: Owen Fiene Mynd: Aðsend
Mælt verður fyrir frumvarpi um nýja stjórnarskrá á Alþingi í dag, í fjórða sinn. Þingmenn Pírata og Samfylkingar og tveir þingmenn utan flokka leggja frumvarpið fram. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, flutningsmaður frumvarpsins og þingmaður Pírata, er hóflega bjartsýn um að það nái fram að ganga í þetta sinn.

 

Meira en 43.000 undirskriftir til stuðnings söfnuninni Nýju stjórnarskrána strax voru afhentar Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og öðrum fulltrúum stjórnmálaflokka í gær. 

„Ég lagði það upp í upphafi þessa kjörtímabils að við myndum ljúka heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á tveimur kjörtímabilum,“ sagði Katrín í gær, þegar hún tók á móti listanum. „Mér finnst þetta sýna mikinn áhuga á slíkum breytingum og ég held að sé mjög mikilvægt að Alþingi taki efnislega umræðu um þær hér á þessu þingi.“

Katrín hyggst sjálf, sem þingmaður, leggja fram fjögur frumvörp um breytingar á stjórnarskránni í næsta mánuði. Þau eru umdeild, því margir vilja heildstætt frumvarp um nýja stjórnarskrá, byggða á tillögum stjórnlagaráðs frá 2011.

„Það má auðvitað alltaf vona“

Þórhildur Sunna mælir fyrir slíku frumvarpi á Alþingi í dag. Þingmenn Pírata og Samfylkingar, auk Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur og Andrésar Inga Jónssonar, þingmanna utan flokka, leggja frumvarpið fram. Það er byggt á vinnu Alþingis á tillögum stjórnlagaráðs veturinn 2012 og 2013. 

„Við höfum tekið saman allar breytingatillögur sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kom með og tekið tillit til athugasemda frá Feneyjanefndinni, og uppfært í ákveðið stöðuskjal sem sýnir hvar Alþingi var statt þegar að stjórnarskránni var stungið ofan í skúffu 2013,“ segir Þórhildur Sunna. „Við erum með þessu, og erum búin að gera í þrígang, að færa Alþingi tækifæri til að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið og virða vilja þjóðarinnar um að frumvarp stjórnlagaráðs verði lagt til grundvallar að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland.“

Þetta mál hefur ekki fengið framgang í þinginu til þessa, áttu von á að það gangi betur í þetta skipti?

„Það má auðvitað alltaf vona, en hingað til hef ég séð mikla tregðu hjá þingmeirihlutanum að virða lýðræðislega niðurstöðu þjóðarinnar,“ sagði Þórhildur Sunna.