Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Níu skipverjar eru með mótefni við COVID-19

21.10.2020 - 15:12
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Níu skipverjar í áhöfn togarans Júlíusar Geirmundssonar eru með mótefni við COVID-19. Þetta segja niðurstöður sýnatöku sem fór fram á skipinu í gær.

Áhöfnin fer í land í dag með leyfi frá umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum. 25 eru í áhöfninni en af þeim eru þrettán smitaðir og þurfa að vera áfram í einangrun. Fimm þeirra fara í farsóttahús í nágrenni Ísafjarðar sem sett verður upp af þessu tilefni. Aðrir fara til síns heima eða í íbúðir á eigin vegum. Einn verður áfram um borð í skipinu. 

Þrír eru hvorki smitaðir né með mótefni og þurfa því að sæta sóttkví. Níu hafa þróað með sér mótefni og eru því frjálsir ferða sinna. Þeir hafa því þegar sýkst og jafnað sig af veirunni. 

Þetta kemur fram í tilkynningu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Þar segir einnig að vettvangsstjórn og aðgerðastjórn hafi verið virkjaðar við uppsetningu farsóttahússins, flutning á fólki og annað sem tengist hópsýkingunni. Samráð hafi verið haft við sóttvarnalækni, Sjúkratryggingar Íslands, Rauða kross Íslands og fleiri. 

19 skipverjar greindust með COVID-19 þegar áhöfnin fór í sýnatöku á sunnudag. Þá hafði skipið komið til hafnar á Ísafirði til olíutöku. Áhöfnin hefur ekki fengið að fara frá borði hingað til.