Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Nauðsynlegt að skýra betur valdheimildir til sóttvarna

21.10.2020 - 22:10
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Höfuðborgarsvæ? - Facebook
Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis telur rétt að skýra betur valdheimildir yfirvalda til sóttvarnaráðstafana. Meðal annars þurfi að tryggja rétt almennings til að skjóta málum til dómstóla.

 

Rætt var um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til sóttvarnaráðstafana á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun, meðal annars út frá álitsgerð Páls Hreinssonar sem birt var í síðasta mánuði.

Þá hefur Bjarni Már Magnússon prófessor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík gagnrýnt að sumar aðgerðir byggi á alþjóðasamningum sem hafi ekki öðlast fullt gildi hér á landi.

Jón Þór Ólafsson formaður nefndarinnar segir mikilvægt að allar aðgerðir stjórnvalda byggi á skýrum lagaheimildum.

„Þannig að það er fullt sem þarf að laga. Það þarf að setja það inn að fólk eigi rétt á að því að fara fyrir dómstóla ef það fer í sóttkví. Það er þannig með einangrun. Stjórnarskráin segir að ef þú ert frelsissviptur þá hefur þú rétt á því að fara með þann ágreining fyrir dómara. Það hefur ekki mikið reynt á það en núna hefur fólk verið sektað fyrir það að brjóta sóttkví þannig að þá verðum við að fá þetta á hreint,“ segir Jón Þór.

Kolbeinn Óttarsson Proppé fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni segir að meðalhófs hafi verið gætt í aðgerðum stjórnvalda en hins vegar þurfi að skerpa á ýmsum lagaákvæðum.

„Það er sérstaklega ýmislegt sem þarf bara einfaldlega að uppfæra. Sóttvarnalögin þar er t.d. ekki talað um sóttkví og svo framvegis. Það þarf að tryggja að það sé hægt að skjóta málum til dómstóla. Heilbrigðisráðherra er með á þingmálaskrá uppfærslu á sóttvarnalögunum þar sem akkúrat er tekið á þessu,“ segir Kolbeinn.  

 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV