Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Lögreglan lítur fánamálið alvarlegum augum

21.10.2020 - 18:31
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jóhannesson - Morgunblaðið
Mynd af lögreglumanni með þrjá fána festa á hnífavesti sitt hefur vakið mikla athygli. Lögreglan lítur það alvarlegum augum að lögreglumenn setji upp slíka fána. „Þetta er ekki liðið,“ segir upplýsingafulltrúi hjá lögreglunni.

Morgunblaðið birti myndina og henni hefur verið deilt á Twitter. Þar hefur komið fram að sumir fánarnir tengist hatri og fordómum eða ýti undir slíkt.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst er myndin nokkurra ára gömul. Hún hefur oft verið notuð með fréttum á mbl.is. Enginn virðist þó hafa tekið eftir fánunum fyrr en nú.

Segist vera sorgmædd yfir þessu

Myndin er af Anitu Rut Harðardóttur lögreglumanni. Hún segist vera sorgmædd yfir þessu. Fánarnir tengist ekki hatri og fordómum. „Þetta er árás á mína persónu. En ég veit betur og verð bara að gleyma þessu,“ segir hún.

Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson er upplýsingafulltrúi lögreglunnar. Hann segir að málið sé litið alvarlegum augum. Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn, segir að að ekkert ætti að vera á lögreglubúningum sem ekki væri á þeim í upphafi. Hann hafi komið þeim skilaboðum áleiðis.

Anita segir að fánarnir á myndinni séu merki sem lögreglumenn um allan heim skiptast á. Hún hafi til dæmis sent eitt slíkt merki til lögreglumanns í Bretlandi. Mjög margir lögreglumenn séu með svona merki innan á lögreglubúningnum.