Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Kannski treysta menn sér ekki í þessa rökræðu“

Mynd: Einar Rafnsson / RUV
Skotveiðifélag Íslands er afar ósátt við að rjúpnaveiðidögum hafi ekki verið fjölgað frá í fyrra. Formaðurinn óttast slys þegar veiðimenn ana út í hvers kyns veður til þess að nýta dagana. Hann segir að faraldurinn ætti ekki að hafa mikil áhrif á veiðarnar.

Rjúpnaveiðar hefjast sunnudaginn 1. nóvember næstkomandi. Umhverfisráðuneytið hefur fallist á tillögu Umhverfisstofnunar um að leyfa veiði í 22 daga, sem er sami dagafjöldi og í fyrra. Samkvæmt lögum er heimilt að leyfa veiði í allt að 69 daga. Skotvís, Skotveiðifélag Íslands, er afar ósátt við að dögunum hafi ekki verið fjölgað.

„Það er einfaldlega vegna þess að þá geta menn valið betur hvaða daga þeir fara, og eru ekki að fara í óstöðug veður eða á tvísýnum forsendum á veiðarnar,“ segir Áki Ármann Jónsson, formaður Skotvís.

Óttist þið um öryggi ykkar fólks?

„Já. Eftir því sem veðrið er tvísýnna, þoka og svona, þá er bara meiri hætta á slysum.“

Þá segir Áki að færri veiðidagar auki álagið á rjúpuna sjálfa.

Veiða 10% af stofninum

Þau svör fengust hjá Umhverfisstofnun að engar upplýsingar hefðu komið fram sem gæfu tilefni til breytinga á veiðunum frá því í fyrra. 

„Árið 2019 var veiðidögum fjölgað úr 15 í 22. Sá fjöldi var ákvarðaður af ráðuneytinu til þriggja ára. Það hafa engar nýjar upplýsingar komið fram sem kalla á breytingar á gildandi reglugerð.  Veiðidagafjöldi virðist ekki hafa áhrif á sóknardaga samkvæmt gögnum.  Umhverfisstofnun taldi rétt að fjölga ekki leyfilegum veiðidögum að svo stöddu heldur hefja vinnu við stjórnunar- og verndaráætlun þar sem samband sóknar og veiddra fugla verður skoðað nánar,“ segir í svari stofnunarinnar.

Í frétt á vef Umhverfisráðuneytisins segir að mjög mikilvægt sé að veiðimenn gæti hófsemi, enda sé veiðistofn rjúpu einn sá minnsti síðan mælingar hófust árið 1995.

Í þessu ljósi, er ekki eðlilegt að veiðar séu minnkaðar?

„Jú, það er eðlilegt að veiðar séu minnkaðar og þær munu minnka vegna þess að við tökum bara 10% úr stofninum,“ segir Áki og bætir því við að það sé vel undir 15%, sem sjálfbærni veiðanna er oft miðuð við.

En hefur fjöldi veiðidaga áhrif á hversu mikið er veitt?

„Nei engin.“

Þannig að menn fara bara þessa færri daga og veiða jafnmikið?

„Já menn fara þessa góðu veiðihelgi með félögunum, veiða, og það er 95% af þeim sem gera það, síðan er málið dautt.“

Áki segir að Skotvís hafi vikum saman óskað eftir fundi með Umhverfisstofnun, án árangurs.

„Það er ótrúlegt og óútskýranlegt. Kannski treysta menn sér ekki í þessa rökræðu af því að við höfum rétt fyrir okkur,“ segir hann.

Bara samskipti við veiðifélagann

Mælst hefur verið til þess að fólk sé sem minnst á ferðinni í því ástandi sem nú ríkir. Áki segir að staða faraldursins verði metin í næstu viku, og leiðbeiningar til skotveiðimanna gefnar út í kjölfarið.

En getið þið veitt þegar mælst er til þess að menn séu sem minnst á ferðinni úti á landi?

„Já, uppi á fjöllum er maður ekki í samskiptum við neina aðra heldur en náttúruna,“ segir Áki. „Við keyrum á staðinn kannski tveir í bíl, förum upp í fjall, veiðum, og keyrum til baka. Þannig að við erum ekki í neinum samskiptum við annað fólk nema kannski veiðifélagann.“