Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hótel Saga í greiðsluskjóli til apríl á næsta ári

Hótel Saga (Bændahöllin).
Fundurinn fór fram á Hótel Sögu í dag. Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í morgun á beiðni Bændahallarinnar annars vegar og Hótel Sögu hins vegar um að framlengja heimild þeirra til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Heimildin er veitt á grundvelli laga sem voru samþykkt í sumar vegna kórónuveirufaraldursins.

Sigurður Kári Kristjánsson, sem var skipaður aðstoðarmaður við fjárhagslega endurskipulagningu félaganna, segir í samtali við fréttastofu að þau hafi verið í greiðsluskjóli gagnvart kröfuhöfum sínum síðan í júlí.

Heimildin var þá veitt til þriggja mánaða en í dag féllst héraðsdómur á að framlengja hana til 7. apríl eða til sex mánuða. Sigurður segir ýmsar hugmyndir hafa verið nefndar til að koma hótelinu aftur af stað en ekkert sé fast í hendi. 

Bændahöllin á fasteignina en Hótel Saga er rekstrarfélag hótelsins. Bæði félögin eru í eigu Bændasamtakanna.

Lög um fjárhagslega endurskipulagningu voru samþykkt í sumar sem hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar.  Þar er fyrirtækjum, sem eru í þeirri stöðu að fjárhagsgrundvelli þeirra hefur verið raskað verulega vegna farsóttarinnar, heimilt að fá greiðsluskjól á meðan unnið er að endurskipulagningu á fjárhag þeirra.