
„Hefði átt að kalla skipið fyrr til hafnar“
Fyrirtækið gerir út togarann Júlíus Geirmundsson en meiri hluti áhafnar hefur greinst með COVID-19. Skipverjar voru með einkenni í tæpar þrjár vikur áður en farið var í skimun.
Í tilkynningunni segir að haft hafi verið samband við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða fljótlega eftir að bera fór á einkennum hjá skipverjum. Ekki hafi þótt ástæða til að kalla skipið til hafnar á þeim tíma. Þegar smit greindust svo um borð eftir þrjár vikur á veiðum var skipinu umsvifalaust snúið til hafnar. Eftir á að hyggja hefði átt að kalla skipið fyrr til hafnar og setja alla áhöfnina í skimun.
Um 213 tonn af frystum afurðum eru í skipinu. Samkvæmt Matvælastofnun bendir ekkert til þess að COVID-19 geti borist með matvælum. Því verður aflinn unninn áfram. Skipið verður sótthreinsað með viðeigandi efnum á næstu dögum eftir viðurkenndum verkferlum.