Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Handboltinn og karfan stefna á að byrja 13. nóvember

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Handboltinn og karfan stefna á að byrja 13. nóvember

21.10.2020 - 13:00
HSÍ og KKÍ stefna á að hefja keppni að nýju í úrvalsdeildunum 13. nóvember næstkomandi. Það er þó háð því að æfingar geti hafist að nýju 3. nóvember.

Á meðan hertar sóttvarnaraðgerðir eru í gangi á höfuðborgarsvæðinu liggur öll keppni niðri í handbolta og körfubolta. Útlit er fyrir að slakað verði aðeins á klónni í byrjun nóvember og þá vilja HSÍ og KKÍ fara af stað.

„Við erum að teikna þetta upp og auðvitað miðast þetta við að æfingar megi hefjast af krafti 4. nóvember. Það er ekki einfalt að koma þessum 300 leikjum, plús öllum fjölliða- og fjölvallamótum yngri flokkanna, fyrir,“ segir Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.

„Við erum að horfa á að byrja 13.-15. nóvember en það er ljóst að Dominosdeild kvenna mun ekki hefjast fyrr en í nóvember þegar stelpurnar eru lausar úr sóttkví eftir landsleikjagluggann sem þær fara í 7. nóvember. Svo fer Dominosdeild karla í einhverja pásu aftur þegar landsleikjagluggi karla hefst 21. nóvember,“ bætir Hannes við.

Hjá HSÍ eru sömu dagsetningar á lofti. Karlalandsliðið leikur tvo leiki í byrjun nóvember en aðeins einn leikmaður Olísdeildarinnar er í hópnum; Björgvin Páll Gústavsson úr Haukum.

„Við stefnum á að hefja leik 13.-15. nóvember með allar deildir,“ segir Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ.

„Við tökum svo smá pásu í lok nóvember vegna landsleikjaverkefnis A-liðs kvenna en annars er bara áfram gakk,“ bætti hann við.