Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gera fleiri fyrirtækjum kleift að fá uppsagnarstyrki

21.10.2020 - 16:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Alþingi samþykkti í dag frumvarp meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar um að fyrirtæki sem skiluðu ekki umsóknum um uppsagnarstyrki á réttum tíma geti fengið styrkina, uppfylli þau önnur skilyrði sem sett voru.

351 fyrirtæki hafa sótt um stuðning vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, en upphæðin nemur rúmum tíu milljörðum króna. Icelandair Group og félög tengd því taka langmest til sín.

Stuðningur er veittur úr ríkissjóði samkvæmt lögum sem samþykkt voru í lok maí sem hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna faraldursins. Stuðningurinn nemur að hámarki 85 prósentum af launakostnaði launamanns á uppsagnarfresti og nær til þeirra sem hafa uppsagnardag frá og með 1. maí til og með 1. október. 

Atvinnurekendur hafa hingað til þurft að skila umsókn um stuðnings mánaðarlega til Skattsins, fyrir næstliðið launatímabil og ekki síðar en 20. hvers mánaðar. „Við framkvæmd laganna hefur komið í ljós að þessi tímafrestur hefur reynst óþarflega knappur,“ segir í greinargerð frumvarpsins. 

„Lagt er til að atvinnurekendum verði veitt ríkara svigrúm við skil á umsóknum. Lagt er til að Skattinum verði heimilað að afgreiða umsóknir sem hafa borist að liðnum umsóknarfresti enda uppfylli umsækjandi að öðru leyti öll skilyrði laganna fyrir stuðningi,“ segir þar enn fremur. „Um ívilnandi breytingu er að ræða sem ekki er talin hafa áhrif á upphaflegt mat á áhrifum aðgerðarinnar á ríkissjóð.“

Þingmenn Samfylkingarinnar lögðust gegn styrkjunum í vor og sögðu úrræðið ekki tryggja réttindi launafólks. „Við töldum á því máli vera ýmsa galla og vildum frekar leggja meiri áherslu á að gera fyrirtækjum kleift að halda ráðningarsambandi við starfsfólk frekar en að segja því upp. Við munum því ekki styðja þessar breytingar,“ sagði Oddný G. Harðardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, þegar greidd voru atkvæði um málið í dag.

Píratar greiddu atkvæði gegn breytingunum. „Við lítum ekki svo á að það eigi að auðvelda fyrirtækjum að segja upp fólki sama hverrar stærðar þau eru. Sama í hvaða formi þar verður. Þannig við segjum nei,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, varaformaður þingflokks Pírata.