Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjárfestingarátak stjórnvalda eykur kynjamisrétti

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Í kringum 85 prósent þeirra starfa sem verða til við fjárfestingar- og uppbyggingarátak ríkissins á framkvæmdatímanum eru karlastörf. Þetta kemur fram í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2021 og í umsögn BSRB er kynjamisréttið sem fylgir átakinu harðlega gagnrýnt. Fjárfestingar- og uppbyggingarátakinu er ætlað að veita viðspyrnu vegna efnahagsáhrifa kórónuveirufaraldursins.

Hallar á konur í áformum um atvinnusköpun

Í frumvarpinu segir að ef horft er til kynjahlutfalls þeirra sem starfa í þeim atvinnugreinum sem fjárfestingarátakið tekur til megi gera ráð fyrir að í kringum 85 prósent þeirra starfa sem skapist á framkvæmdatímanum verði unnið af körlum. Fjárfestingarátakið sem slíkt auki því kynjamisrétti þegar eingöngu er horft til atvinnuskapandi áhrifa. Störfin séu einna helst innan greina byggingarstarfsemi og mannvirkjagerðar, s.s. við byggingu samgöngumannvirkja og nýbyggingu- og endurbætur á fasteignum. Um það bil 92 prósent þeirra sem starfa innan þessara atvinnugreina eru karlar. Einnig kemur fram að kynjahlutfallið sé jafnara í störfum við stafræna þróun, nýsköpun og menningarstarfsemi, sem falla einnig undir átakið, en að þar halli þó líka á konur. 

Þá er fjallað um áhrif fjárfestingar- og uppbyggingarátaksins eftir að framkvæmdatíma lýkur, en þau hafa í mörgum tilfellum einnig meiri jákvæð áhrif á karla en konur. Til dæmis segir að samgöngubætur og stytting á ferðatíma hafi meiri áhrif á karla þar sem þeir ferðist að jafnaði lengri vegalengdir til og frá vinnu. Þó geti samgöngubætur aukið tækifæri kvenna til að sækja menntun eða þjónustu. Þá kunni endurbætur á húsnæði í eigu ríkisins og nýbyggingar að hafa áhrif á konur í umönnunarstörfum. Aukinn stuðningur vegna endurgreiðslna á rannsókna- og þróunarkostnaði valdi óbreyttu ástandi en þar hallar nú þegar á konur. 

Þarf að byggja upp innviði í umönnun og þjónustu

Í nýrri umsögn um fjármálafrumvarpið sem BSRB birti í dag fær fjárfestingar- og uppbyggingarátak ríkisstjórnarinnar falleinkunn út frá jafnréttissjónarmiðum. Þar bendir BSRB til dæmis á að ýmsir málaflokkar hins oinbera, þar sem konur starfa í meirihluta, sæti aðhaldskröfu „sem þýðir að álagið á konur starfandi í opinberri þjónustu eykst samhliða aukinni ólaunaðri vinnu kvenna vegna skertrar þjónustu við börn, aldraða og sjúka vegna sóttvarnaraðgerða“.

„Stór hópur kvenna býr við fátækt eða knöpp kjör og verri heilsu vegna þess að þær eru að annast aðra, í vinnunni og heima. Þetta hefur verið vitað í mörg ár og í stað þess að bregðast við á að auka vandann. Það þarf að styrkja innviðauppbyggingu í greinum umönnunar og þjónustu við börn, fatlað fólk og aldraða og bæta þannig lífskjör þessara hópa en ekki síður kvennanna sem sinna þjónustunni, bæði í einkalífinu og vinnunni,“ segir einnig í umsögninni.