Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Um 38.000 fóru inn á vef Veðurstofunnar á einni mínútu

20.10.2020 - 19:51
Mynd: RÚV / RÚV
Óhætt er að segja að það mæðir mikið á almannavörnum þessa dagana en samhæfingarmiðstöð var virkjuð eftir jarðskjálftann í dag. Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, segir fyrstu viðbrögð hafa verið að meta áhrif jarðskjálftans og hvort þau kalli á einhver sérstök verkefni.

„Við fengum ekki upplýsingar um nein stórtjón, einungis vörur sem duttu af hillum eða myndir og annað slíkt. Engin slys á fólki,“ segir hann.

Vefur Veðurstofunnar lá niðri um tíma í dag vegna álags. „Það eru miklar kröfur í dag um upplýsingar og á innan við mínútu þá tífaldaðist notendaskráning inn á vef Veðurstofunnar og varð allt að 38 þúsund manns. Þannig að það myndast smá svona hik en þetta hafði engin áhrif á störf almannavarna í dag. Ég held að á fimm mínútum hafi vefurinn verið kominn í gagn,“ segir Björn.