Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tilmæli um að fólk haldi sig heima skjóti skökku við

20.10.2020 - 13:21
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum, segir tilmæli um að fólk haldi sig heima skjóti skökku við. Jafnframt sé staðan á spítalanum betri nú en venjulega á þessum tíma árs. Hún spyr sig hvers vegna fólki sé ekki ráðlagt að vera heima á hverju ári þegar álagið á spítalanum eykst vegna inflúensu.

Bryndís skrifar um þetta á Facebook og segir í samtali við fréttastofu að þegar inflúensan fari af stað þá sé rúmanýtingin á Landspítalanum oft yfir 110%. Þá séu hins vegar aldrei gefin út tilmæli til fólks að halda sig heima til að létta á álagi, en það sé hins vegar gert nú.

Það sé sérstaklega slæmt þegar vetrarfrí skólabarna eru á næstunni. Heilbrigðisstarfsfólk hafi verið undir miklu álagi og hlakkað til að vera í fríi með börnunum sínum og fara kannski upp í sumarbústað.

Hún segir stöðuna á spítalanum nú vera í fínu lagi. Það séu þó 60-70 manns inniliggjandi sem þurfa pláss á hjúkrunarheimilum, en þannig sé staðan nánast dags daglega. 

Mikilvægt fyrir fólk að komast aðeins í burtu

Bryndís segir að almennt sé staðan hér góð miðað við önnur lönd og það sé slæmt að fólk geti ekki farið úr bænum til að njóta haustblíðunnar. Hún tekur sérstaklega fram að hún vilji ekki hvetja til þess að fólk fari langt út fyrir höfuðborgarsvæðið og mikilvægt sé að fara varlega. En nú séu til dæmis engir ferðamenn á vegunum sem frekar skapi hættu á slysum.

Hún bendir jafnframt á að það að komast aðeins í burtu geti skipt gríðarlega miklu máli. Margir séu að ganga í gegnum erfiða tíma, kannski vegna atvinnuleysis eða langvarandi sóttkvíar, og þá sé oft mikilvægt að komast aðeins í burtu.

Bryndís undirstrikar að hún sé sammála þeim almennu aðgerðum sem gripið hafi verið til, til dæmis varðandi fjarlægðartakmarkanir, grímunotkun þegar við á og að fólk forðist hópamyndanir. Mikilvægt sé að vernda viðkvæma hópa og passa upp á persónubundnar sóttvarnir. Það eigi þó ekki að koma í veg fyrir að fólk komist aðeins burt til að kúpla sig frá ástandinu.