„Það vita allir að þetta eru svartir peningar“

Mynd: RÚV / RÚV

„Það vita allir að þetta eru svartir peningar“

20.10.2020 - 10:42

Höfundar

„Það á ekki að vera hægt að fólk labbi um með úttroðin umslög og skjalatöskur með peningum,“ segir Margrét Kristmannsdóttir framkvæmdastjóri Pfaff. Hún hefur lengi látið til sín taka í viðskiptalífinu og stýrir einu elsta fjölskyldufyrirtæki landsins en áður hafði afi hennar og svo faðir gengt sama starfi. Allt hófst ævintýrið með einni saumavél fyrir tæpri öld síðan.

Í fyrstu óttaðist hún að stam sem hún glímir við yrði henni fjötur um fót í viðskiptalífinu en hún segir í dag að stamið geti þvert á móti verið styrkur. Hún hefur talað fyrir bættu siðferði í atvinnulífinu og vill að skorin verði upp herör gegn skattsvikum. „Eitt af því sem ég vil breyta er allt þetta reiðufé sem er í umferð,“ segir hún í samtali við Sigmar Guðmundsson í Okkar á milli sem er á dagskrá á RÚV í kvöld. „Hvernig stendur á því að fólki finnst það bara eðlilegt að í mína verslun komi fólk með þykkt umslag af peningum til að kaupa kannski vörur fyrir milljón?“ spyr hún. „Og þú ert með umslag af peningum. Af hverju millifærirðu ekki?“

Hún segir að þetta gerist ekki mikið en þó allt of oft og að upphæðirnar séu oft mjög háar, jafnvel margar milljónir. „Ég heyrði til dæmis um einn sem er að reka fyrirtæki og það kom maður inn til hans sem vantaði glugga í húsið sitt. Gluggarnir áttu að kosta sex og hálfa milljón,“ segir hún. Maðurinn vildi fá að borga með reiðufé en var neitað. „Þessi aðili sagði nei, ég ætla ekki að taka við reiðufé. En maðurinn fór og ég get lofað þér að húsið hans er ekki gluggalaust í dag.“

Yfirvöld þurfi að gefa verslunarmönnum rými til að neita að taka þátt í slíkum viðskiptum. „Ég vil að löggjafinn gefi okkur í versluninni tæki og tól til að segja: Ef þú ætlar að koma til mín og versla fyrir meira en 100 þúsund eða bara 50 þúsund eða hvaða tölu sem er þá bara verður það að gerast með rafrænum hætti. Það á ekki að vera hægt að fólk labbi um með útttroðin umslög og skjalatöskur með peningum. Það vita allir sem vilja vita að 99,9% af þessum peningum eru svartir peningar. Við skulum ekkert vera að halda neitt annað,“ segir hún ákveðin. „Þetta þurfum við að fá upp á yfirborðið því ríkissjóður þarf þetta, sveitafélögin þurfa þetta og við þurfum bara að ná í þessa peninga með hörku.“

Okkar á milli er á dagskrá á RÚV í kvöld kl. 20.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Taldi sig sjá konu með kött á klósettinu

Tónlist

„Þá er þetta ekkert gaman og ekkert smekklegt“

Stjórnmál

„Rosa mikið sem gerist á börunum og göngunum“