Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Stóri skjálfti - Auður Jónsdóttir

Mynd: Forlagið / Forlagið

Stóri skjálfti - Auður Jónsdóttir

20.10.2020 - 17:39

Höfundar

„Það verður svona jarðskjálfti í lífi hennar“, segir Auður Jónsdóttir, um Sögu, aðalpersónu Stóra skjálfta sem er bók vikunnar. Saga fær í upphafi bókar stórt flogakast og Auður, sem sjálf hefur upplifað flogaköst, segist hafa langað til „að byrja bók á manneskju sem væri að vakna upp úr flogi því þá er svolítið eins og maður sé nýfæddur“.

Stóri skjálfti kom út árið 2015 og var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Hún hefur nú verið kvikmynduð og er væntanleg á næstunni í því formi. Í bókinni byggist upp spenna í kringum leit Sögu að upplýsingum um það sem gerðist í aðdraganda flogsins en einnig um hana sjálfa og sambönd hennar við sína nánustu; við fjölskylduna sem reynt hefur að þegja í hel ógnvænlegt leyndarmál en ekki síst eiginmanninn Berg, sem hún á erfitt með að skilja að sé nú fyrrverandi eiginmaður. Inn í frásögnina fléttast svo margvíslegar hugleiðingar um minni, sársauka og áföll.

Gestir í sunnudagsþætti verða Harpa Rún Kristjánsdóttir, bóndi, bókmenntafræðingur og rithöfundur, og Guðrún Steinþórsdóttir, doktor í íslenskum bókmenntum. Umsjón hefur Auður Aðalsteinsdóttir.