Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Stór jarðskjálfti á Reykjanesskaga fannst vel

20.10.2020 - 17:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stór jarðskjálfti varð á Reykjanesskaga klukkan 13.43 í dag. Skjálftinn var af stærðinni 5,6. Hann fannst mjög vel á Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og víðar. Upptök skjálftans voru 6 kílómetra fyrir vestan Kleifarvatn og 14 kílómetra fyrir norðaustan Grindavík.

 

Stór jarðskjálfti varð á Reykjanesskaga klukkan 13.43 í dag. Skjálftinn var af stærðinni 5,6. Hann fannst mjög vel á Suðurnesjum, höfuðborgarsvæðinu og víðar. Upptök skjálftans voru 6 kílómetra fyrir vestan Kleifarvatn og 14 kílómetra fyrir norðaustan Grindavík.

Eftir svona stóran jarðskjálfta koma oft margir skjálftar. Þeir kallast eftirskjálftar og eru oftast minni en aðalskjálftinn. Hátt í 250 eftirskjálftar höfðu mælst klukkan 16.30. Búast má við að þeir haldi áfram. Stærstu eftirskjálftarnir voru af stærðinni 4,2.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar Veðurstofunnar, segir að það taki jarðskorpuna tíma að jafna sig eftir svona stóran skjálfta. Ekki séu þó merki um gosóróa sem gefi neitt til kynna um eldgos.

Engar tilkynningar hafa borist um meiðsli á fólki eða skemmdir á mannvirkjum.

Samhæfingarstöð almannavarna var virkjuð og fylgist vel með skjálftasvæðinu. Lögreglumenn fara um og kanna áhrif skjálftans. Þeir fara meðal annars í Krýsuvík, sem er nálægt upptökum skjálftans.

 

 

annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur