Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Spár ekki talningar á fiskum segir fiskifræðingur

20.10.2020 - 10:31
Mynd: Karl Sigttryggsson / RÚV/Landinn
Í síðustu viku kynnti Hafrannsóknastofnun niðurstöður úr loðnumælingum haustsins og lagði til að loðnuveiðar verði ekki leyfðar í vetur, en ráðgjöfin verði endurskoðuð eftir áramót í ljósi mælinga sem gera á í upphafi árs. Þetta gæti orðið þriðji veturinn í röð þar sem verður loðnubrestur því ekki hefur mælst nægilega mikið til þess að Hafrannsóknastofnun geti mælt með veiðum.

Birkir Bárðarson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun bendir þó á að bæði í haust og í fyrrahaust hafi verið töluvert um ungloðnu í mælingunum. Þá mældust um 82 milljarðar einstaklinga sem var mjög gott. Miðað við aflareglu var þá mælt með veiðum upp á 170 þúsund tonn í vetur en í haust mældist ekki nóg til að hægt væri að mæla með veiðum og ráðgjöfinni því breytt í engar veiðar. 

Haustleiðangurinn í ár var erfiður

Í fyrrahaust segir Birkir var nokkur óvissa í mælingunni og því beðið eftir útkomunni í ár. Haustmælingunni nú er þó tekið með nokkrum fyrirvara.  Hafís var þá óvenju útbreiddur og sást meira af honum en hefur gerst undanfarin tíu ár. Alla jafna er útbreiðsla hafíss með minnsta móti í september og því var loðnuleitarleiðangurinn færður fram árið 2010. Leiðangurinn í haust var erfiður, bæði veður og þessi mikla útbreiðsla hafíss segir Birkir. Nokkuð sást af loðnu við hafísröndina sums staðar en ekki var hægt  að fara yfir öll þau svæði þar sem venjulega er vitjað um loðnu og því gæti verið að stofninn sé vanmetinn. Vetrarmæling í janúar gefur væntanlega fyllri myndi. 

Allt eru þetta spár ekki talningar

Frá aldamótum hefur verið töluverð hlýnun í hafinu fyrir norðan land, segir Birkir og líklegt að það sem er að gerast í loðnustofninum tengist því. Síðustu ár hefur samt dregið úr hlýnunaráhrifunum og menn spyrja sig hvað veldur. Samfara umhverfisbreytingum síðustu ára segir Birkir hafa menn séð það að loðnan hefur færst vestar og norðar og ekki ljóst hvaða áhrif það hefur á komu hennar á hrygningarstöðvar að vetri. Þá hefur hún líka komið seinna inn á landgrunnið við Ísland í tengslum við hrygningargönguna. Allt virðist þetta haldast í hendur við umhverfisbreytingar.  Það verður spennandi að sjá hvað skilar sér til hrygningar í vetur og hvenær gangan verður segir Birkir. Þá segir hann athyglisvert að það hefur aukist að loðnan hrygnir fyrir norðan land, ýmsar tilgátur skýra það. Allt eru þetta tilgátur segir Birkir að endingu og mælingarnar sem Hafrannsóknastofnun gerir eru spár en ekki talningar á fiskum. 

I