Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Slökkt á hljóðnemum nema frambjóðandi hafi orðið

Mynd: EPA / EPA
Nefnd sem skipuleggur kappræður forsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum hefur ákveðið að slökkt verði á hljóðnemum þegar frambjóðandi hefur ekki orðið. Donald Trump, forseti, hefur kvartað undan þessari ákvörðun og eins yfir umræðuefninu og stjórnanda kappræðnanna. Joe Biden, frambjóðandi Demókrata, gerir ekki athugasemdir við fyrirkomulagið.

Frammíköll og gífuryrði

Síðari kappræður frambjóðendanna verða á fimmtudagskvöld, fyrri kappræðurnar í lok september einkenndust af frammíköllum og gífuryrðum. Biden og Trump töluðu hvor yfir annan og eitt sinn skipaði Biden forsetanum að halda kjafti. Með því að hafa slökkt á hljóðnemum nema þegar frambjóðandi hefur orðið hyggjast skipuleggjendur, sem eru óháð nefnd, koma í veg fyrir senur eins og einkenndu fyrri umræðurnar. 

Trump segir Biden þann „spilltasta í sögunni" 

Tvær vikur eru í dag til kosninga og baráttan nálgast hámark. Trump forseti fer víða og var í Tucson í Arizona í gærkvöld. Þar fór hann mikinn og veittist harkalega að Biden, sagði hann hafa látið sósíalista, kommúnista, marxista og öfgavinstrifólk yfirtaka Demókrataflokkinn. Að ekki væri minnst á að hann væri sá spilltasti í sögunni.

Biden yfir í Arizona sem Trump verður að vinna

Biden mælist með tæplega fjögurra prósentustiga forskot í Arizona, en það er eitt þeirra ríkja sem fréttaskýrendur segja að Trump verði að vinna til að eiga von um að halda forsetaembætti. Sjálfur sagði Trump að atkvæðin streymdu til sín. Joe Biden hélt enga fundi í gær, hann býr sig undir kappræðurnar á fimmtudag.